Oddný Sturludóttir, formaður skóla- og frístundaráðs, verður ekki viðstödd opinn fund sem hópur foreldra í Hamrahverfi hefur boðað til í kvöld þar sem ræða á flutning unglingastigs Hamraskóla í Foldaskóla í haust. Fundurinn hefst klukkan 19:30 í Hamraskóla.
„Ef henni finnst þetta málefni ekki þess virði að mæta, þá er það hennar mál. Mér finnst ótrúlegt ef þeir borgarfulltrúar sem standa fyrir þessu máli ætla ekki að mæta,“ segir Árni Guðmundsson, einn talsmanna hópsins sem stendur fyrir fundinum.
Bauð fund á skrifstofu sinni
Það var hinn 7. janúar sem hópurinn bauð Oddnýju og fleiri fulltrúum borgarinnar til fundar til að fá skýrari svör um sameininguna, hvað hún þýðir fyrir framtíð skólans. Hinn 12. janúar svaraði Oddný boðinu en sagðist ekki telja þörf á öðrum opnum fundi um sameiningarmálin. Þess í stað bauð hún Árna auk tveggja annarra talsmanna hópsins að koma til fundar við sig á skrifstofu sinni til að ræða málin.„Við þrjú erum bara lítið brot af þessum hópi sem spratt upp eftir fund með stýrihópi sameiningarmálanna í Foldaskóla í desember. Það er náttúrlega ekki boðlegt að tugir foreldra sem voru á þeim fundi fari að troða sér inn á hennar skrifstofu. Það er mun eðlilegra að við boðum hana á fund sem og við höfum gert með þessum árangri,“ segir Árni.
Því ítrekaði hópurinn fundarboðið til Oddnýjar og svaraði hún tölvupósti hópsins á þriðjudag. Þar sagði hún fundartímann ekki henta en verið væri að skoða fundartíma í næstu viku. kjartan@mbl.is