Fossvogsdalur Borgarráð vill fá sundlaugina í aðalskipulag.
Fossvogsdalur Borgarráð vill fá sundlaugina í aðalskipulag. — Morgunblaðið/Þorkell
Borgarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi 19. janúar tillögu borgarstjóra þar sem segir m.a. að „borgarráð lýsi yfir vilja sínum til þess að tryggja, í gegnum aðalskipulag Reykjavíkur, möguleika á sundlaug í Fossvogsdal.

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi 19. janúar tillögu borgarstjóra þar sem segir m.a. að „borgarráð lýsi yfir vilja sínum til þess að tryggja, í gegnum aðalskipulag Reykjavíkur, möguleika á sundlaug í Fossvogsdal. Sundlaugin yrði byggð í samvinnu við Kópavogsbæ“. Viljayfirlýsingin er gerð „í trausti þess að vilji Kópavogs standi til hins sama og sveitarfélögin skipti jafnt með sér kostnaði komi til verkefnisins“.

Í greinargerð kemur fram að nú sé unnið að nýju aðalskipulagi fyrir Reykjavík líkt og Kópavog. Hjá báðum sveitarfélögunum hafi verið vilji til að skoða möguleika á sundlaug í Fossvogsdal. Því er lagt til að sveitarfélögin lýsi yfir vilja til að tryggja þennan möguleika í aðalskipulagi sínu.

Guðrún Pálsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, sagði að hugmyndin um sundlaug í Fossvogsdal hefði oft skotið upp kollinum. Hún hefði aftur verið nefnd nú í sambandi við endurskoðun aðalskipulags Kópavogs. Guðrún sagði að á sínum tíma hefði verið rætt um litla og umhverfisvæna laug með aðkomu um göngustíga. Þá voru m.a. hugmyndir um að staðsetja laugina nálægt Víkingsheimilinu og eins í nágrenni við Fossvogsskóla.

Guðrún benti á að síðan Fossvogslaug var í umræðunni hefði Kópavogur byggt Versali og sundlaug við Boðaþing. Hún taldi að í ljósi þess væri það tæplega forgangsverkefni fyrir sveitarfélagið á þessum aðhaldstímum að byggja enn eina sundlaug. gudni@mbl.is