Í vissum hópum hag- og stjórnmálafræðinga er talað um að það sé nánast eins og hvert annað náttúrulögmál að vel meintar aðgerðir stjórnvalda til að leysa hvers lags vanda geri alltaf illt verra. Þegar litið er í baksýnisspegilinn er það oft dagljóst að betra hefði verið ef stjórnvöld hefðu ekkert aðhafst.
Því miður er þessi kenning alveg ókunnug þeim sem í dag stjórna Íslandi, en stjórnvöld í Danmörku kunna að hafa kveikt á perunni, a.m.k. til hálfs. Ráðamenn þar í landi hafa gert sér grein fyrir að atvinnuleysisbætur auka og lengja atvinnuleysi.
Það er rétt að skrifa þetta tvisvar: atvinnuleysisbætur auka og lengja atvinnuleysi.
Bandaríska dagblaðið New York Times birti á dögunum áhugaverða umfjöllun um þróun mála í Danmörku. Danirnir hafa stytt þann tíma sem atvinnulausir geta verið á bótum úr fjórum árum í tvö. Nokkrar ástæður eru gefnar fyrir þessari styttingu: vitaskuld þarf að spara, en svo virðist verða erfiðara fyrir flest fólk að fá vinnu eftir því sem atvinnuleysið varir lengur, og rausnarlegt bótakerfið virkar í reynd til að halda fjölda fólks af vinnumarkaði.
NYT birti með fréttinni þetta línurit hér að ofan. Línuritið er fengið frá vinnumálakerfi Dana, ber saman tvö tímabil, og sýnir dreifingu bótaþega eftir því hve lengi atvinnuleysið varir. Önnur línan sýnir ástandið árið 1998, þegar danska ríkið veitti atvinnuleysisbætur í fimm ár. Hin línan sýnir svo hegðun atvinnulausra árin 2005-2007, þegar bótatíminn var fjögur ár.
Það sem grafið sýnir skýrt er að töluverður hluti bótaþega finnur sér vinnu nokkuð fljótt, en langfæstum tekst þó að finna starf fyrr en einmitt þegar bótatíminn er við það að klárast. Merkilegast er að þegar bótatíminn er fjögur ár en ekki fimm, þá skyndilega getur hinn dæmigerði atvinnulausi Dani allt í einu fundið sér starf ári fyrr.
Þessar tölur eiga auðvitað ekki að koma á óvart. Það er mjög skynsamleg ákvörðun fyrir marga að velja að vera á bótum. Fyrir venjulegan launamann er ekki endilega svo mikill tekjumissir að vera á atvinnuleysisbótum, og tekjuávinningurinn af að vinna frekar 160 stundir á viku er svo lítill að svarar ekki fyrirhöfn, hvað þá ef vinnan sem býðst er ekkert draumastarf. Flest störf sem borga meðallaun eða minna eru svo þess eðlis að fólki er ekki refsað fyrir að vera nokkur ár af markaði. Gröfukarl, kokkur eða sölukona er alveg jafnhæfur starfskraftur þrátt fyrir langt tímabil án atvinnu.
Gæti það verið að Vinnumálastofnun og bótakerfið gerði ekki nokkrum manni gagn, og besta leiðin til að efla atvinnu í landinu væri að leggja allt klabbið niður strax á morgun? Jafnvel létta í leiðinni af neytendum og vinnuveitendum þeirri byrði sem fylgir því að greiða tugmilljarða í atvinnuleysisbætur ár hvert?