Rokkarar syngja gjarnan um hraðskreiða bíla en Brian Johnson, söngvari einnar algerustu rokksveitar heims, AC/DC, lætur ekki sitja við orðin tóm.
Rokkarar syngja gjarnan um hraðskreiða bíla en Brian Johnson, söngvari einnar algerustu rokksveitar heims, AC/DC, lætur ekki sitja við orðin tóm. Johnson er mikill ökuþór þegar hann er ekki á bakvið hljóðnemann og um þessa helgi mun hann taka þátt í kappakstrinum Drive in Rolex 24 sem fram fer á Daytona. Er þátttaka Johnson liður í söfnunarátakinu Highway to Help þar sem hann hyggst leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn krabbameini í börnum. Aðdáendur geta textað inn skilaboð á meðan á kappakstrinum stendur og rennur framlag þeirra í þartilgerðan sjóð. Johnson, sem gekk til liðs við AC/DC eftir að fyrrverandi söngvari sveitarinnar, Bon Scott, sneri tám upp í loft hóf upp raust sína í fyrsta sinn á metsöluplötunni Back in Black. Hann hefur þó alla tíð verið bílaóður og rekur meira að segja heimasíðu þess efnis (brianjohnsonracing.com). Þar kemur fram að auk þess að keppa í kappakstri safni hann bílum af miklum móð. Johnson hefur meira að segja gefið út sjálfsævisögu sem miðar frekar að bílum en rokki. Rockers and Rollers: An Automotive Autobiography kallast hún og hægt er að fá hana keypta sem hljóðbók beint í gegnum síðuna (þar sem koma við sögu meðal annara félagar hans úr AC/DC, þeir Cliff Williams, Malcolm og Angus Young – og Arnold Schwarzenegger!?). Málmvísindadeild Morgunblaðsins óskar Johnson velfarnaðar um helgina.