Alkunna er að talsmenn sjálfstæðra þjóða, sem vilja ekki skerða fullveldi þeirra fyrir óljósan ávinning og færa fyrir því rök, eru gjarnan sakaðir um að vera með þjóðarrembing. Slíkar ásakanir bitu lengi illa vegna þess að á fyrriparti síðustu aldar tókst stórríki í Evrópu að ganga þannig fram, m.a. með vísun til þjóðernisraka, að þau ógeðslegu óhæfuverk líða ekki úr minni. Og mega ekki líða mönnum úr minni. En hatursverk Adolfs Hitlers voru ekki byggð á elsku og virðingu fyrir eigin þjóð, eins og leikslokin sýndu, þótt þjóðernislegum merkimiðum væri vendilega ofið saman við merki hakakrossins og þeirra „hugsjóna“ sem hann var talinn endurspegla. Enda var hatri Hitlers og hans nóta ekki eingöngu beint að gyðingum, þótt ofsinn og aflið hafi hvergi verið sparað gagnvart þeim.
Tilvísun til þjóðar eða þjóðernisást felur ekki í sér illsku í garð eins eða neins. Og er síst stefnt gegn frjálsum og öflugum viðskiptum þjóða á milli. ESB er stofnað sem tollabandalag. En best mun þjóðum farnast eftir því sem tollum og hindrunum fækkar og þær verði til staðar, sem tengjast frumþörfum hverrar þjóðar.
Það er ekki eftirsóknarvert fyrir veröldina að tollabandalög sem lúta sérstökum lögmálum verði sem öflugust og þau lönd sem liggja að þeim verði, tollanna vegna, að ganga undir jarðarmen til að geta stundað frjáls viðskipti. Slík þróun væri öfugsnúin. Hófsöm þjóðernisrök úr munni talsmanna lýðræðisríkja eru ekki varasöm. Öflug einræðisríki geta auðvitað notað slík rök eins og öll önnur illsku sinni til framdráttar. Þjóðernisrök og þjóðernisást smáríkja ógnar engum, nema íbúum slíkra ríkja sjálfum, ef þau eru notuð til að þrengja í raun kost þeirra sjálfra í bráð eða lengd.
Utanaðkomandi, sem hafa fengið tækifæri til að fylgjast með kosningabaráttu stóru flokkanna í Bandaríkjunum, eru stundum undrandi á því hversu ást á landi og þjóð er þar feimnislaust hampað. Fánar og veifur landsins eru á hverju strái. Hver ræðumaðurinn af öðrum tekur fram að Bandaríkin séu ekki aðeins voldugasta ríki heims heldur einnig það besta. Enginn þeirra virðist í neinum vafa um að þetta séu algild og óumdeild sannindi. Sérhver forseti Bandaríkjanna lýkur sínum ræðum af stærri gerðinni með því að biðja guð að blessa Bandaríkin. Íslenskur forsætisráðherra bar slíka ósk fram einu sinni, fyrir rúmum þremur árum, og menn eru enn að hafa orð á því. Var þó tilefnið óvenjulegt og ærið.
En svo sérkennilegt sem það er, þá er Evrópusambandið og ákafir talsmenn þess að ganga sífellt lengra í að nota þjóðernisleg rök fyrir tilveru sambandsins. Þjóðernisrökin vísa þá til „Evrópuþjóðarinnar“ sem er þó ekki ennþá til, samkvæmt neinni hefðbundinni skilgreiningu, hvað sem verða kann.
Fyrir rúmu ári byrjuðu þau Merkel og Sarkozy að koma sömu fullyrðingunni að í barátturæðum sínum fyrir björgun evrunnar: „Falli evran fellur Evrópa.“ Ekki verður séð að neinn „Evrópufræðimaður“ hafi reynt að rýna í hvað þessi síendurtekna fullyrðing þýðir á mæltu máli. Augljóst er að leiðtogarnir tveir hafa metið það svo, að barátta fyrir tilveru evrunnar, einnar sér, hefði ekki dugað til að fá ríki ESB til að grípa til örþrifaráða. Þess vegna kom þetta slagorð; „falli evran fellur Evrópa“. En hvert?
Heimsálfan í landfræðilegum skilningi verður kjurr. Hvert þjóðríki verður á sínum stað, þótt evran lognist út af sem mynt. Sé það rétt, að tilvera ESB byggist á tilveru evrunnar og bandalagið myndi leysast upp við dauða hennar, flyttist mikið af fullveldi heim aftur svo þar gætu menn farið að tala kinnroðalaust um sjálfstæðar þjóðir.
En fyrir daga evrunnar og raunar lengur var aðalröksemdin fyrir tilveru Evrópusambandsins sú, að því sé ætlað að tryggja frið í Evrópu. Og í hátíðarræðum er jafnan tilkynnt að þetta markmið hafi náðst. Utanríkisráðherra Lúxemborgar sagði, sjálfsagt óviljandi, við Der Spiegel í vikunni, að ESB hefði verið stofnað af hinum forsjálu feðrum þess í þeim megintilgangi að Þýskaland og Frakkland lentu ekki aftur í stríðsátökum. Dettur einhverjum í alvöru í hug að „falli“ evran þá „falli“ Evrópa og þá fari Frakkar og Þjóðverjar að fljúgast á eftir að hafa hellt ógrynni af steypu í gömul burðarvirki Siegfriedlínu og Maginotlínu? Hin upplýsta umræða um ESB er vissulega mjög sérstök, en upplýst er hún ekki.