[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fáir töldu Robert Downey Jr. eiga sér viðreisnar von er hann virtist ofurseldur eiturfíkn sinni fyrir fullt og allt. Góðu heilli er hann á beinu brautinni í dag og nýtur meiri velgengni en nokkurn tíma fyrr. Meðal nýjustu smella hans er myndin Iron Man 2.

Aðeins tvítugur að aldri var Downey kominn í hóp ungstirna Hollywoodborgar, þökk sé hlutverkum í unglingamyndum á borð við Weird Science og The Pick-Up Artist. Frábær frammistaða í Less Than Zero, kvikmyndagerð samnefndrar bókar eftir Bret Easton Ellis, vakti hins vegar verulega athygli á leikhæfileikum hans. Grunaði fáa að hlutverkið fæli í sér jafn mikið forspárgildi og raun ber vitni: Downey leikur táning sem hefur allt til alls, veit ekki aura sinna tal en leiðist samt út í eiturlyfjanotkun. Reyndar sætir nokkurri furðu að leikarinn skyldi ekki lenda út af sporinu fyrr því að sögn var karl faðir hans duglegur við að fá honum dóp frá því hann var smápjakkur.

Það ku svo hafa verið í kjölfar gerðar Natural Born Killers (1994) sem Downey missir alvarlega fótanna og komst ekki á endanlega á lappirnar fyrr en tæplega níu árum síðar, að loknum ítrekuðum sektargreiðslum, fangelsisvist og löskuðu mannorði í kvikmyndaheiminum. Það tókst honum engu að síður og hefur hin síðustu ár hreppt hvert aðalhlutverkið á fætur öðru, í bland við smærri hlutverk, til dæmis í gæðamyndum eins og Good Night and Good Luck og Zodiac.

Í hópi nýrri stórmynda Downeys er Járnmaðurinn 2. Þar er hann aftur í hlutverki Tony Stark. Í þetta sinn þarf hann að eiga við Ivan Danko, skæðan fjandmann frá Rússlandi sem leikinn af Mickey Rourke í miklum vígamóð. Þá verður hann ennfremur að kljást við þingmann nokkurn sem heimtar að Stark láti Járnmanns-brynjuna af hendi svo hana megi nota í þágu Bandaríkjahers. Rétt eins og fyrri myndin um Járnmanninn gekk sú seinni glimrandi vel í bíó og þegar er hafin framleiðsla við Járnmanninn 3.

Iron Man 2 er sýnd á RÚV á laugardagskvöld.