Bæjarstjórn Meirihlutinn í bæjarstjórn Kópavogs féll fyrir níu dögum. Engar formlegar viðræður hafa átt sér stað, en mikið um ýmsar þreifingar, að sögn bæjarfulltrúa. Samfylking og VG hafa myndað með sér bandalag.
Bæjarstjórn Meirihlutinn í bæjarstjórn Kópavogs féll fyrir níu dögum. Engar formlegar viðræður hafa átt sér stað, en mikið um ýmsar þreifingar, að sögn bæjarfulltrúa. Samfylking og VG hafa myndað með sér bandalag. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Níu dagar eru síðan meirihlutinn í bæjarstjórn Kópavogs féll. Prófessor í stjórnmálafræði segir að leysa þurfi úr málum sem fyrst. Ekki sé hægt að efna til kosninga.

Fréttaskýring

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Níu dagar eru síðan meirihlutinn í bæjarstjórn Kópavogs féll. Prófessor í stjórnmálafræði segir að leysa þurfi úr málum sem fyrst. Ekki sé hægt að efna til kosninga. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks segja engar formlegar viðræður hafa verið, en að ýmsar þreifingar eigi sér stað.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, segir þetta ástand í Kópavogi ekki vera einsdæmi. „Sums staðar er það þannig að meirihlutar lifa ekki lengi, það er mismikill stöðugleiki í þeim,“ segir Gunnar Helgi. „Væntanlega er gamli meirihlutinn enn við völd og verkaskiptingin sem hann hefur ákveðið heldur sér líklega þar til ný hefur verið ákveðin.“ Gunnar segir enga lagaheimild fyrir því að efna til kosninga gangi ekki að mynda nýjan meirihluta. „Það er ekki hægt. Fólk verður að leysa úr þessu. Það er ástæða fyrir því að við höfum pólitíska stjórn á sveitarfélögum, það þarf að taka pólitískar ákvarðanir, þannig að til lengri tíma er þetta slæmt.“

Engir formlegir viðræðufundir voru haldnir í gær á milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, en síðarnefndi flokkurinn hefur lýst yfir vilja til slíks samstarfs. Hafsteinn Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir að ákjósanlegast væri ef allir flokkar gætu unnið saman, eins og Hjálmar Hjálmarsson, fulltrúi Næstbesta flokksins, hefur lagt fram. „Það er svosem ekkert nýtt að allir flokkar vinni saman, það hefur gerst áður. Við verðum að fara að finna leið til að klára þetta og helst fyrir helgina. Menn eru yfirleitt sammála í 90% mála.“

Sérstakt flokkabandalag

Samfylkingin og VG hafa gefið út yfirlýsingu um að halda áfram samstarfi í bæjarstjórn. Ármann Kr. Ólafsson, oddviti sjálfstæðismanna, vildi fá að hefja viðræður við Samfylkinguna eina og sér í gær, en því var hafnað. „Mér finnst mjög sérstakt að geta ekki rætt um að mynda meirihluta í Kópavogi án þess að það sé skilyrt að þessir tveir flokkar séu saman, ekki síst í ljósi þess að þeir voru ekki í neinu bandalagi fyrir kosningar.“ Ármann segir stöðuna bæði óvænta og flókna, en ekki sé dagaspursmál að leysa úr henni. „Það er mikilvægara að vanda til verka svo hægt sé að koma á eðlilegu stjórnarfari á ný.“

VILL MEIRA SAMSTARF

Þurfum traustan hóp

Hjálmar Hjálmarsson, bæjarfulltrúi Næstbesta flokksins, óskaði eftir því að leggja fram tillögu um breytt vinnulag í bæjarstjórn og samstarf allra flokka á bæjarstjórnarfundi í fyrradag. Hjálmar fékk ekki að setja tillöguna á dagskrá. „Kannski hefði ég mátt undirbúa þetta öðruvísi. En ég legg hana fyrir í bæjarráði á morgun (í dag). Ég held að samhent bæjarstjórn sé árangursríkari. Það er ekki gott ástand í Kópavogi; það ríkir ákveðinn trúnaðarbrestur á milli gamla meirihlutans og bæjarstjóra. Við þurfum traustan hóp sem styður bæjarstjórann, hann er framkvæmdastjórinn. Þessi rifrildi draga orku úr fólki. Pólitík þarf ekki að vera svona.“