Í forystu Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, og Steingrímur á fundinum.
Í forystu Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, og Steingrímur á fundinum. — Ljósmynd/ESB
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is „Þetta voru gagnlegir fundir. Ég hitti fyrst Stefan Füle, stækkunarstjóra Evrópusambandsins. Síðan átti ég klukkutíma fund með Mariu Damanaki [sjávarútvegsstjóra ESB] og voru þá fyrst og fremst sjávarútvegsmálin...

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Þetta voru gagnlegir fundir. Ég hitti fyrst Stefan Füle, stækkunarstjóra Evrópusambandsins. Síðan átti ég klukkutíma fund með Mariu Damanaki [sjávarútvegsstjóra ESB] og voru þá fyrst og fremst sjávarútvegsmálin rædd. Síðan átti ég aftur fund með Füle og Dacian Ciolos [landbúnaðarstjóra ESB]. Þá var farið sameiginlega yfir stöðuna í viðræðunum og þá sérstaklega landbúnaðarmálin,“ segir Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra um fundi með forystumönnum ESB í Brussel í gær.

„Það var ágætt að hitta þetta fólk. Ég var búinn að hitta Füle áður [...] og það var mikilvægt að hitta Damanaki og komast í milliliðalaust samband við hana,“ segir hann um fyrsta fund sinn með Damanaki.

„Alvöruviðræður“ framundan

En hvernig skynjar Steingrímur afstöðu forystumanna ESB til þess hvernig aðildarviðræður um sjávarútveg og landbúnað ganga?

„Ég held að það sé áhugi á að koma þeim betur í gang, að komast í hinar eiginlegu viðræður. Ég lagði auðvitað áherslu á það af okkar hálfu að við vildum sem fyrst fara að geta látið reyna á þetta í alvöruviðræðum og vonandi tekst það. Það átta sig allir á því að þarna erum við með stóru hlutina undir, eða suma af þeim stærstu. Síðan er ekki hægt að neita því að það var svolítið rætt um makríl líka.“

– Hver er afstaða ESB í því máli?

„Málið stendur þannig að það er óleyst og horfir kannski ekkert sérstaklega vel. Það eru í gangi fundir í Bergen og við erum í sambandi við þá [fulltrúa Íslands] líka. Auðvitað er vilji af allra hálfu til að komast eitthvað áfram en það eru auðvitað miklir hagsmunir í húfi og við verðum að standa fast á okkar hagsmunum í því máli. En vissulega ber að taka það fram að við leggjum ríka áherslu á að þessum málum sé haldið aðskildum og ekki blandað saman. Það er algert skilyrði af okkar hálfu að menn séu ekki að þvæla því saman,“ segir Steingrímur og á við makríldeiluna og aðildarumsókn Íslands að ESB.

Unnið samkvæmt leiðsögn

– Nú hefur VG og þú sjálfur lagt vissar línur í sjávarútvegsmálum. Hvernig skynjarðu vilja ESB til að koma til móts við kröfur ykkar?

„Við vinnum [...] samkvæmt þeirri leiðsögn sem hefur verið dregin upp sameiginlega og leiðsögninni frá utanríkismálanefnd. Það eru að ég held allir sammála um hvaða grundvallarhagsmuni við þurfum að passa upp á. Ætli megi ekki að segja að þegar rætt er um þessi mál viðurkenna allir að Ísland hafi mikla sérstöðu og að það mun aldrei nást nein niðurstaða öðruvísi en að sú sérstaða sé viðurkennd. En í hve ríkum mæli og hvernig það yrði gert er auðvitað stóra efið. Þannig að það er ekki hægt að segja að þetta sé óvinsamlegt í þeim skilningi [...] Það liggur fyrir og er viðurkennt, t.d. í rýniskýrslunum, að ESB viðurkennir og áttar sig á sérstöðu Íslands. Hvað það þýðir þegar kemur til stykkisins í hinum eiginlegu samningum verður að koma í ljós,“ segir hann.

DRAGIST EKKI TIL 2013

Viðræðurnar hefjist í ár

Steingrímur segir ótímabært að gefa upp tímasetningar þegar hann er spurður hvenær hinar „eiginlegu samningaviðræður“, eins og hann orðar það, hefjist.

„Það er náttúrulega markmiðið að þær verði allar komnar í gang á þessu ári. Það er auðvitað mjög mikilvægt að það dragist ekki lengur en fram eftir árinu.“

– Hvenær sjáum við samning og kosningar um hann?

„Það get ég ekki sagt. Ég vil ekki fara nákvæmlega út í það. Það verður að koma í ljós.“