Ólafur Hauksson
Ólafur Hauksson
Eftir Ólaf Hauksson: "Það þarf engan Nóbelsverðlaunahafa til að átta sig á að Jón Þór var bullandi vanhæfur til að taka þátt í úrlausn málsins."

Hvort sem fólk trúir því eða ekki, þá er íslenska „réttarkerfið“ enn að fjalla um samkeppnislagabrot Icelandair gegn Iceland Express fyrir átta árum. Þann 30. janúar verður málflutningur í Hæstarétti vegna þessara brota; Samkeppniseftirlitið gegn Icelandair.

Frá fyrsta degi árið 2003 hóf Icelandair þunga sókn gegn þessum nýja keppinaut í millilandaflugi. Markmiðið Icelandair var að útrýma samkeppninni sem fyrst með Vorsmellum og Netsmellum ásamt stöðugum undirboðum í öðrum fargjaldaflokkum.

Það segir sitt um hversu langt Icelandair gekk til að kaffæra keppinautinn, að farþegatekjur fyrirtækisins lækkuðu um 8,5 milljarða króna samanlagt árin 2003 og 2004, á núverandi verðlagi, miðað við árin á undan. Þessum tekjum fórnaði Icelandair sem sé til að koma í veg fyrir samkeppni í millilandaflugi.

Kjarklaus samkeppnisyfirvöld

Undirboð Icelandair höfðu vitaskuld lamandi áhrif á Iceland Express. Félagið hafði enga sterka fjárhagslega bakhjarla og enginn slíkur þorði að leggja því lið í slagnum við Icelandair. Iceland Express leitaði því ítrekað eftir íhlutun samkeppnisyfirvalda. En þau höfðu ekki kjark til að stoppa samkeppnislagabrot Icelandair.

Haustið 2004 var Iceland Express í raun gjaldþrota vegna linnulausra undirboða Icelandair. Frekar en að láta félagið fara á hausinn settu eigendurnir það á brunaútsölu.

Fyrrverandi stjórnarmenn og hluthafar í Icelandair mættu snemma morguninn eftir og borguðu heilar 15 milljónir króna fyrir 89% hlut í félaginu. Skömmu eftir eigendaskiptin byrjuðu bæði félögin að hækka lægstu fargjöldin, sem fóru upp um 50% á aðeins fjórum mánuðum. Samkeppninni var þannig „bjargað,“ en að vísu á kostnað neytenda.

Endalausar tafir af hálfu Icelandair

Allt frá því seint á árinu 2004 til dagsins í dag, í tæp átta ár, hefur Samkeppniseftirlitið burðast við að koma lögum yfir Icelandair vegna samkeppnislagabrotanna. Stofnunin hefur margt gott lagt til málanna í þeirri meðferð. Icelandair hefur þráast við allan tímann, og beitt öllum tiltækum lagaklækjum til að tefja fyrir.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi loks í málinu í fyrra. Niðurstaðan var sú að það hefði ekki verið undirboð hjá Icelandair að bjóða fargjöld til London fyrir rúmar 12 þúsund krónur fram og til baka (auk skatta). Hins vegar hefði það verið lítilsháttar undirboð að bjóða slíkar ferðir á svipuðu verði til Kaupmannahafnar. Dómurinn taldi hins vegar enga ástæðu til að sekta Icelandair um 130 milljónir króna, líkt og samkeppnisyfirvöld höfðu gert. Þessari niðurstöðu var áfrýjað til Hæstaréttar.

Slappur héraðsdómur

Héraðsdómur tók ekkert tillit til þess að undirboð Icelandair höfðu leitt til þess að stofnendur Iceland Express töpuðu félaginu – og það í hendurnar á hrægömmunum sem stóðu að samkeppnislagabrotunum í stjórn Icelandair. Tjón frumherjanna er ekki einu sinni nefnt í dómsniðurstöðunni.

Í héraðsdómnum er ekkert spáð í heildarmyndina, heldur bara hvort reikna eigi hinn eða þennan kostnaðarliðinn sem hluta af Netsmellum. Til að mynda er stjórnunarkostnaður og sölukostnaður Icelandair ekki talinn til útgjaldaliða vegna Netsmellanna, líkt og þeir hafi átt sjálfstætt líf.

Dómurinn sér ekki skóginn fyrir trjánum. Þar má finna þá undarlegu niðurstöðu að sala á tugþúsundum flugferða til London á rúmar 12 þúsund krónur auk skatta hafi ekki verið undirboð – og þá erum við að tala um fram og til baka. Þetta sama flugfélag rukkaði áður aldrei minna en 33 þúsund krónur plús skatta fyrir sömu ferðir. Hver var tilgangurinn með aðgerðum Icelandair annar en sá að koma í veg fyrir samkeppni?

Bullandi vanhæfur meðdómandi

Skýringuna á þessari furðulegu niðurstöðu héraðsdóms virðist mega rekja að hluta til annars sérfróða meðdómandans, Jóns Þórs Sturlusonar, sem er dósent í rekstrarhagfræði.

Jón Þór hafði átt í harðvítugum deilum við Samkeppniseftirlitið vegna skýrslu sem hann samdi ásamt Tryggva Þór Herbertssyni fyrir olíufélögin. Þeir töldu að olíusamráð félaganna hefði ekki leitt til verðhækkunar. Samkeppnisyfirvöld gagnrýndu þessa skýrslu harðlega. Jón Þór og Tryggvi töldu þetta ómálefnalegar aðdróttanir, sem einkenndust af útúrsnúningum, hálfsannleik og á köflum hreinum rangfærslum. Nokkrum misserum síðar var Jón Þór hins vegar sestur í dómarastólinn, til að segja af eða á um málatilbúnað Samkeppniseftirlitsins. Það þarf engan Nóbelsverðlaunahafa til að átta sig á að Jón Þór var bullandi vanhæfur til að taka þátt í úrlausn málsins. Héraðsdómarinn sá hins vegar ekkert athugavert við aðkomu hans að málinu.

Þegar horft er til þess að Icelandair tapaði um 8,5 milljörðum króna á því að reyna að drepa Iceland Express í tvö ár samfleytt verður eftirfarandi setning úr dómsniðurstöðunni seint talin íslensku réttarfari til vegsauka:

„Að mati dómsins var ekki um sértæka aðgerð að þessu leyti að ræða af hálfu [Icelandair].“

Höfundur var einn af stofnendum Iceland Express.

Höf.: Ólaf Hauksson