Trækompagniet er gólfefnafyrirtæki, sem selur hágæðagólfefni víða um Evrópu, aðallega þó í Danmörku. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar sínar í Bagsværd, skammt utan Kaupmannahafnar og Frosti Þórðarson er eigandi þess og stofnandi.
Hann flutti þó til Danmerkur í talsvert öðrum erindagjörðum. „Ég starfaði fyrir Gulu línuna í Evrópu í kringum aldamótin og var síðan beðinn um að fara til Danmerkur á hennar vegum, en danskir fjárfestar komu inn í fyrirtækið. Þetta gekk þó ekki eftir eins og til stóð og Gula línan komst aldrei á flug í Danmörku. En mér líkaði svo vel hérna að ég gat ekki hugsað mér að fara heim. Þá stofnaði ég fyrirtæki sem aðstoðaði fyrirtæki við að koma sér fyrir í Danmörku,“ segir Frosti.
Vissi ekkert um parket
Fyrr en varði var Frosti farinn að fást við önnur verkefni. „Tengdapabbi minn átti verksmiðju í Litháen sem framleiddi trégólf og honum datt í hug hvort hægt væri að selja framleiðsluna í Skandinavíu. Þannig hófst þetta allt saman. Ég vissi nákvæmlega ekkert um parket, en fór að aka út um alla Danmörku til að selja gólfefni ásamt viðskiptafélaga mínum. Það gekk vel, en fljótlega rákum við okkur á að við vorum ekki ánægðir með verslanirnar sem keyptu af okkur og þá ákváðum við að fara að selja sjálfir beint til viðskiptavinanna. 2004 keypti ég húsnæði í Bagsværd og árið 2007 fjárfestum við í sýningarsal.“Stuttu síðar greindist viðskiptafélagi Frosta með heilaæxli og það setti verulegt strik í reikninginn. Í framhaldinu var fyrirtækið endurskipulagt og nú skiptist það í tvær deildir; annars vegar sölu til einstaklinga og hins vegar til fyrirtækja og verktaka. Gólfefnin fær Frosti aðallega frá Þýskalandi, Austurríki og Ítalíu og eingöngu er um hágæðagólfefni að ræða, sem yfirleitt fást ekki annars staðar. „Við höfum sérstöðu og getum brugðist við nánast öllum óskum fólks. Við erum að klæðskerasníða gólfefni og stundum þurfum við að fara um allan heim til að uppfylla sérstakar óskir,“ segir Frosti.
Núna starfa fimm hjá Trækompagniet, auk Frosta. Auk verslunarinnar í Bagsværd er rekin 400 fermetra verslun í Árósum. Síðustu sjö ár hefur salan tvöfaldast á hverju ári og Frosti segir efnahagskreppuna í Danmörku lítil sem engin áhrif hafa á gengi fyrirtækisins. „Sveiflurnar í efnahagslífinu hafa lítil áhrif á okkar viðskiptavini. Flestir þeirra eru í þeirri stöðu að þeir halda sínu striki þrátt fyrir kreppu.“
Verðlaunafyrirtæki
Velgengni fyrirtækisins hefur vakið verðskuldaða athygli, en í ár og í fyrra fékk Trækompagniet Gazella-verðlaunin, sem veitt eru af danska viðskiptadagblaðinu Börsen. Verðlaunin hljóta þau fyrirtæki sem vaxa hraðast í Danmörku ár hvert. Einnig hefur mikið verið fjallað um gólfefni Trækompaginet í híbýlablöðum og hönnunartímaritum. „Það er langbesta auglýsingin, þessi blöð eru mikið lesin og hafa mjög mikil áhrif,“ segir Frosti.Reksturinn hefur gengið einstaklega vel og fyrirtækið fest sig í sessi. En hvað er framundan? „Það er erfitt að segja. Við höldum áfram að gera okkar besta eins og við höfum alltaf gert,“ segir Frosti.
annalilja@mbl.is