Skúli Hansen skulih@mbl.is Fjölmennur fundur um þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um afturköllun ákæru á hendur Geir H.

Skúli Hansen

skulih@mbl.is

Fjölmennur fundur um þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, var haldinn í höfuðstöðvum Samfylkingarinnar við Hallveigarstíg í gær.

Að sögn Kjartans Valgarðssonar, formanns Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, var mikill meirihluti fundarmanna, um 90%, ósáttur við afstöðu þeirra þingmanna Samfylkingarinnar sem kusu gegn frávísunartillögu sem lögð var fram gegn tillögu Bjarna. „Mjög margir voru óánægðir og töldu að Alþingi ætti ekki að grípa inn í þetta ferli,“ segir Kjartan. „Mér finnst það mikið heilbrigðisvottorð fyrir flokkinn að siðferðisgrundvöllur og réttlæti skipti fólk meira máli en salt í grautinn.“ Kjartan tekur jafnframt fram að fráleitt sé að ráðherrar og þingmenn sem séu hugsanlega á vitnalista saksóknara Alþingis greiði atkvæði um málið á Alþingi.

Tveir þingmenn Samfylkingarinnar, Skúli Helgason og Valgerður Bjarnadóttir, voru viðstaddir fundinn. „Stemningin var sú að fólk var óánægt og vonsvikið yfir því að tillögunni skyldi ekki vera vísað frá,“ segir Valgerður aðspurð út í stemninguna á fundinum. Hún tekur þó fram að enginn hiti hafi verið í fundarmönnum þó svo að meirihluti þeirra sem tjáðu sig hafi lýst yfir vonbrigðum með niðurstöður atkvæðagreiðslunnar.