Þýski bílsmiðurinn Volkswagen segir að þrátt fyrir 2% samdrátt á nýliðnu ári hafi Golf engu að síður verið mest seldi bíllinn í Evrópu á sl. ári. Í öðru sæti varð annar Volkswagen, smábíllinn Polo.
VW seldi 484.547 eintök af Golf í fyrra í Evrópu og 356.490 Polo-bíla. Komst síðarnefndi bíllinn upp fyrir Ford Fiesta sem seldist í 348.465 eintökum.
Í næstu sætum voru Opel/Vauxhall Corsa með 313.325 eintök og Renault Clio en af honum voru keyptir 294.172 nýir í Evrópu 2011. Ný kynslóð af Golf-bílnum verður kynnt til sögunnar á bílasýningunni í París í haust, Golf MK VII.
Á þessu stigi hafa engar fregnir lekið út um bílinn að öðru leyti en því að hann mun byggður á MQB-grunninum svonefnda sem sá fyrst dagsins ljós í Cross Coupe hugmyndabílnum. Hann mun verða knúinn ýmsum útgáfum bensín- og dísilvéla og m.a. fást í BlueMotion, GTI og R-útgáfum.
agas@mbl.is