Steindór Hjartarson fæddist í Auðsholtshjáleigu í Ölfusi 17. janúar 1936. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 7. janúar 2012.

Útför Steindórs fór fram frá Áskirkju 17. janúar 2012.

Nú kveðjum við elsku afa Steindór á 76 ára afmælisdaginn hans.

Undanfarna daga hefur verið erfitt að horfa á afa veikan, hann sem aldrei var veikur eða lét á því bera.

Öll fjölskyldan stóð semheldin við hlið hans dag og nótt eins og hann kenndi okkur svo vel, að halda hópinn og tengjast góðum böndum.

Margar góðar minningar eigum við frá Langholtsvegi 12 og verður skrítið að fara ekki aftur í jólaboð á jóladag þar sem afi eldar dýrindis jólasteik með öllu tilheyrandi, klæddur í kokkafötin og með kokkahúfuna og svuntuna sína.

Jólaboðin og afmælisveislurnar hjá afa og Ágústu voru ómissandi þáttur í tilverunni. Þrátt fyrir ört stækkandi fjölskyldu og minna pláss vildi enginn missa af veislunum.

Afi fylgdist alltaf vel með barnabörnunum og mökum okkar, var alltaf umhugað um að öllum liði vel og að allt væri í lagi.

Afi var handlaginn í meira lagi, það sást vel í garðinum þeirra og á húsinu öllu, utan sem innan. Allt var tipp topp og snyrtilegt. Við eigum eftir að sakna þess að labba hring með afa í garðinum þar sem hann sýndi okkur afrakstur sumarsins og hvað hann hafði verið að dunda sér við.

Í seinni tíð tók afi upp pensilinn og hóf að mála, hvert meistaraverkið af öðru leit dagsins ljós og erum við systur heppnar að eiga fallegar myndir eftir hann.

Langafabörnin hans Gústaf Emil og Bergdís Lóa voru heppin að fá að kynnast afa sínum, en leitt að tíminn skyldi vera svo stuttur og að þau skyldu ekki fá að eiga samleið með honum lengur.

Með þessum fáum línum kveðjum við elsku afa en vitum að hann og amma Þyrí munu saman vaka yfir okkur.

Sumir hverfa fljótt úr heimi hér

skrítið stundum hvernig lífið er,

eftir sitja margar minningar

Þakklæti og trú.

Þó ég fái ekki að snerta þig

veit ég samt að þú ert hér,

og ég veit að þú munt elska mig,

geyma mig og gæta hjá þér.

Og þegar tími minn á jörðu hér,

liðinn er þá er ég burtu fer,

þá ég veit að þú munt visa veg

og taka á móti mér.

(Ingibjörg Gunnarsdóttir þýddi.)

Þín afabörn,

Hafdís og Aldís Guðrún.

Nú kveðjum við Steindór Hjartarson, en mér var mjög brugðið að sjá dánartilkynningu hans fyrir nokkrum dögum.

Ég kynntist Steindóri þegar ég réði mig til starfa sem útibússtjóri í Breiðholtsútibúi Landsbankans árið 1999, en hann gegndi þar starfi húsvarðar. Það var afar samheldinn hópur sem starfaði í útibúinu og hver dagur var tilhlökkunarefni. Steindór var sá sem mætti fyrstur til vinnu á morgnana, hellti upp á kaffi fyrir okkur hin og gætti þess að allt væri til reiðu þegar útibúið var opnað. Steindór var afar vel liðinn á meðal starfsfólks og það var gott að leita til hans. Hann var bóngóður og greiðvikinn með afbrigðum. Hann var handlaginn og ráðagóður og leysti öll þau verkefni sem honum voru falin faglega og með sínu lagi. Hann hélt góðu skipulagi á öllu og reynsla hans til sjós kom oft að góðum notum. Steindór var með góða kímnigáfu og mörg tilsvör hans voru hnyttin og skemmtileg. Breiðholtsútibú var fyrst og fremst kvennavinnustaður enda vorum við lengst af þrír karlmennirnir þar. Honum var umhugað um „stelpurnar okkar“ og lagði allt kapp á það að snúast í kringum þær og passa upp á að öllum liði vel.

Steindór var hár og myndarlegur og ekki laust við það að hann væri valdsmannslegur þegar hann gekk um afgreiðslusalinn. Margir viðskiptavina okkar töldu þannig víst að hann væri útibússtjórinn á staðnum.

Steindór skildi stórt skarð eftir sig þegar hann lét af störfum vegna aldurs fyrir nokkrum árum og hans hefur frá þeim tíma verið sárt saknað. Ógleymanlegt er þegar hann bauð okkur fyrrverandi samstarfsfólki sínu í glæsilega veislu í tilefni af sjötíu ára afmæli hans. Þar var Steindór í essinu sínu og minnti okkur rækilega á alla þá mannkosti sem við söknuðum frá dögum hans í bankanum.

Steindór reyndist mér góður vinur og öllum þeim sem hann starfaði með. Hann var umfram allt öðlingur sem gerði sér far um að láta gott af sér leiða. Hann var góður samferðamaður á lífsins vegi og hans verður sárt saknað.

Fyrir hönd samstarfsfólks úr Breiðholtsútibúi sendi ég Andreu Ágústu, eftirlifandi eiginkonu hans, börnum hans og fjölskyldunni allri hugheilar samúðarkveðjur.

Tómas Hallgrímsson.