EM í Serbíu
Ívar Benediktsson í Novi Sad
iben@mbl.is
Þátttöku íslenska landsliðsins í handknattleik á Evrópumótinu í Serbíu lauk í gær með jafntefli í leik við þrefalda meistara Frakka sem hafa verið langt frá markmiðum sínum í þessari keppni. Jafntefli, 29:29, í undarlegum leik, sérstaklega framan af þegar svo virtist sem það væri „mánudagur“ í Frökkum sem fyrir rest gyrtu stig í brók og gerðu það sem þeir þurftu til þess að gera það skásta úr stöðunni.
Íslenska landsliðið hafnar í 10. sæti mótinu en með tilliti til úrslita er árangurinn sá sami og á EM í Sviss þegar liðið vann einnig tvo leiki, gerði eitt jafntefli og tapaði þremur leikjum. Þá voru flestir sáttir við niðurstöðuna og töldu hana viðunandi eftir að mikil afföll höfðu orðið á hópnum í keppninni. Nú eru menn beggja blands og er það einkum vegna þess að á síðasta Evrópumóti hafnaði Ísland í þriðja sæti og vann í fyrsta sinn til verðlauna.
Fimm nýliðar í keppninni
Fyrir keppnina var rennt nokkuð blint í sjóinn. Leiðtogi liðsins til 15 ára, Ólafur Stefánsson, ákvað að vera ekki með að þessu sinni og þá dró Snorri Steinn Guðjónsson sig út af persónulegum ástæðum. Ljóst var að burðarásarnir væru færri en áður og meira myndi mæða á þeim sem eftir stæðu. Kallaðir voru inn ungir og efnilegir leikmenn, en einnig hafa heyrst raddir sem óskað hafa eftir endurnýjun í hópnum. Því var svarað að nokkru leyti í þessari keppni, hvort sem það var meðvitað eða ekki. Sennilega neyddust menn til þess þar sem öllum má vera ljóst að íslenskur handknattleikur státar ekki af mönnum eins og Ólafi og Snorra Steini á hverju strái. Ungu mennirnir hafa komið inn og fengið sína eldskírn með mismikilli þátttöku í leikjum. Yfirleitt hefur þeim gengið vel en hins vegar tel ég alveg ljóst að sumir þeirra eigi enn nokkuð í land með að ná þeim gæðum sem leikmenn landsliðsins á síðustu árum hafa haft og hafa. Ekkert lið af þeim allra fremstu hér á mótinu tefldi fram fimm nýliðum þrátt fyrir að sumstaðar hafi einhver tilraunastarfsemi átt sér stað. Þetta er staðreynd sem ber að hafa í huga þegar litið er á árangurinn.
Sterkir menn voru meiddir
Ekki verður framhjá því litið að auk þeirra áfalla sem fólust í því að vera án Ólafs og Snorra lék Alexander aðeins leikina þrjá í riðlakeppninni á hálfri ferð og tók ekkert þátt í milliriðlinum vegna meiðsla. Alexander hefur á síðustu sex árum verið jafnbesti varnarmaður liðsins auk þess að vera aðsópsmikill og sterkur sóknarmaður sem leyst hefur hlutverk sitt með sóma. Ingimundur Ingimundarson meiddist á nára í undirbúningnum, náði aldrei heilsu og var ekki nema skugginn af sjálfum sér og lék lítið.
Slóveníutapið svíður helst
Þegar mótið er gert upp þá svíður mönnum helst tapið fyrir Slóveníu í leik sem var engan veginn viðunandi af hálfu íslenska liðsins, með eða án Ólafs, Snorra, Alexanders og Ingimundar. Með einn sigur til viðbótar úr mótinu hefðu sennilega allir verið sáttir.Framundan geta svo verið enn meiri breytingar en bara þær að Ólafur kveðji landsliðið fyrir fullt og fast eftir næstu Ólympíuleika, verði íslenska landsliðið með á þeim. Þá mun vandi íslenska liðsins ekki snúa að sóknarleiknum, eins og margir telja e.t.v. Vandinn mun fyrst og fremst snúast um varnarleikinn og hvernig hann verði leystur. Sverre Jakobsson er kominn á aldur og óvíst að hann leiki meira en ár til viðbótar. Enginn arftaki hans er sjáanlegur. Hér með er lýst eftir honum.
Ísland – Frakkland 29:29
SPC Vojvodina-höllin í Novi Sad, Evrópukeppni karla, milliriðill, miðvikudag 25. janúar 2012.Gangur leiksins : 3:0, 5:2, 7:3,10:5, 12:6, 13:10, 15:11, 15:12 , 16:14, 16:17, 18:17, 19:21, 22:22, 23:25, 24:27, 26:27, 26:28, 28:28, 28:29, 29:29 .
Mörk Íslands : Guðjón Valur Sigurðsson 5/1, Þórir Ólafsson 4/2, Rúnar Kárason 4, Aron Pálmarsson 4, Róbert Gunnarsson 4, Ásgeir Örn Hallgrímsson 3, Arnór Atlason 2Ólafur Bjarki Ragnarsson 2, Vignir Svavarsson 1.
Varin skot : Björgvin Páll Gústavsson 17/2 (þar af 3 aftur til mótherja), Aron Rafn Eðvarðsson 5 (þar af 1 aftur til mótherja).
Utan vallar : 2 mínútur.
Mörk Frakklands : William Accambray 10, Gregoire Detrez 4, Jérome Fernandez 3/2, Bertrand Gille 3, Samuel Honrubia 2/1, Daniel Narcisse 2, Luc Abalo 2, Cedric Sorhaindo 2, Guillaume Joli 1/1.
Varin skot : Thierry Omeyer 12.
Utan vallar : 4 mínútur.
Dómarar : Nenad Nikolic og Dusan Stojkovic frá Serbíu.
Áhorfendur : Um 1.000.