Hagnaður Marel á síðasta ári gæti numið 32,1 milljónum evra, borið saman við hagnað upp á 13,5 milljónir evra árið 2010, að því er fram kemur í afkomuspá greiningardeildar Arion banka. Marel birtir uppgjör sitt fyrir fjórða ársfjórðung 2011 þann 1.

Hagnaður Marel á síðasta ári gæti numið 32,1 milljónum evra, borið saman við hagnað upp á 13,5 milljónir evra árið 2010, að því er fram kemur í afkomuspá greiningardeildar Arion banka.

Marel birtir uppgjör sitt fyrir fjórða ársfjórðung 2011 þann 1. febrúar og er reiknað með góðu uppgjöri. Spá Arion banka gerir ráð fyrir því að tekjur félagsins aukist um 10,7% á milli ára, verði tæplega 186 milljónir evra og EBITDA um 28 milljónir evra eða um 15% af tekjum.

Pantanastaða Marel í lok þriðja ársfjórðungs hefur aldrei verið hærri, en þá stóð hún í samtals 204 milljónum evra. Á það er bent í afkomuspá Arion banka að þessi sterka pantanastaða tryggi að öllum líkindum góðar horfur hjá félaginu næstu misserin. Afkomutölur á hverjum fjórðungi velti þó töluvert á nýjum pöntunum og afgreiðslu stærri verkefna.

Spáin gerir ráð fyrir því að tekjuvöxtur Marel á árinu verði um 15,1% og EBITDA félagsins um 88 milljónir evra. Rekstur Marel hefur að flestu leyti gengið mjög vel og hagnaður félagsins meira en tvöfaldaðist á fyrstu níu mánuðum síðasta árs borið saman við árið 2010 - jókst úr 8 milljónum evra í 19,5 milljónir evra.

Þrátt fyrir sterka pantanastöðu þá gætu versnandi efnahagshorfur út í heimi og sviptingar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sett strik í reikninginn. „Þó Marel sé minna bundið þróun á mörkuðum í Evrópu og Bandaríkjunum en áður, þar sem auknar pantanir berast til dæmis frá Kína og Brasilíu, er félagið ennþá mjög háð efnahagsaðstæðum þar enda koma tekjur félagsins að mestu þaðan.“ hordur@mbl.is