Fátt er táknrænna um ágæti bresks handverks en Rolls Royce. Því hríslast stolt um æðar breskra þegna þessa dagana vegna frétta af metsölu breska bílsmiðsins á nýliðnu ári. Allt frá stofnun Rolls Royce árið 1906 hefur fyrirtækið ekki selt jafnmargar lúxusrennireiðar og á nýliðnu ári. Segja má, að baggamun ríði 50% aukning sölu til nýríkra kínverskra kaupsýslumanna.
Mikill útflutningur
En velgengnin átti sér víðar stað þar sem salan jókst um 30% í Bretlandi, 17% í Norður-Ameríku og 47% í Asíu. Lætur nærri að þrír af hverjum fjórum Rollsum sem smíðaðir eru í Goodwood í Suðaustur-Englandi séu fluttir út.Árar nú betur en lengi hjá Rolls Royce sem þýski bílsmiðurinn BMW keypti árið 1998. Seldust 3.538 Rollsar í fyrra, sem er 31% aukning frá árinu áður, 2010. Fyrra sölumet var 33 ára gamalt, frá árinu 1978, en þá seldi fyrirtækið 3.347 bíla.
Draugurinn selst vel
Af einsökum gerðum Rolls Royce seldist mest bíll með því óvenjulega nafni Ghost eða draugurinn. Hafin var smíði á honum 2010 en hann er nokkru minni en kjölfestubíll framleiðslunnar, Phantom. Draugurinn kostar um 205.000 evrur, jafnvirði um 32 milljóna króna. Phantom er ögn dýrari, kostar um 285 þúsund evrur, ríflega 45 milljónir króna.agas@mbl.is