Í sumum uppskriftum er skýrt tekið fram að blanda verði innihaldsefnunum saman með tréskeið. Sennilega eru þeir ófáir sem hundsa slíkar leiðbeiningar, hverju á það líka að skipta hvort notuð er tréskeið eða eitthvað annað við matseldina?
Blaðamaður Finns var hins vegar forvitinn um hvort það breytti í raun einhverju að nota ranga skeið á röngum stað. Kom í ljós að tréskeiðin hefur ákveðna eiginleika sem geta haft töluvert að segja fyrir útkomuna, sér í lagi við ýmsa fingerða matargerð.
Rétta blandan
Ein skýringin sem gefin er á notagildi tréskeiðarinnar er sú að ekki sé hægt að beita svo miklu afli með tréskeið án þess að hún hreinlega brotni. Skeiðin tryggi því að hráefnunum sé blandað mjúklega saman. Það er líka þægilegt að munda skeiðina þegar verið er að hræra saman seiga blöndu enda haldið gott, skaftið nokkuð þykkt og rúnnað. Sumum kokkum þykir tréskeiðin gefa betri tilfinningu fyrir ástandi blöndunnar svo þeir hræri ekki of lítið eða of mikið.Önnur skýring sem gefin er er sú að ólíkt málmskeiðum er tréskeiðin oftast með rúnnuðum brúnum, og sker því ekki jafn harkalega í gegnum hráefnin. Tréskeiðin hentar því til að koma í veg fyrir að efnin ofblandist, ef svo má segja, t.d. þegar eggjum er blandað við deig.
Þá getur málmurinn í málmskeið eða öðrum áhöldum valdið breytingum á hráefninu, t.d. ef unnið er með súr hráefni. Viðurinn í tréskeiðinni hefur ekki þennan ókost né plastið í plastskeið.
Auðvitað fer tréskeiðin líka betur með potta og pönnur, og sker ekki í málm- eða teflonhúðina ólíkt málmáhöldum. Tréskeiðin hentar líka vel til að blanda saman heitum réttum, eins og súpum og sósum, því viðurinn leiðir ekki hita. Helsti gallinn við tréskeiðarnar er hins vegar að þær geta dregið í sig sterka lyktina úr t.d. laukum og hvítlauk, þurfa helst að vera varðar með olíum, og þola oft ekki vel að fara í uppþvottavélina.
ai@mbl.is