— Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Innanhússarkitektinn Katrín Ísfeld sá um að hanna breytingar á eldhúsi í Hafnarfirði. Í eldhúsinu var innrétting úr kirsuberjaviði og ákvað hún að nota hana.

Innanhússarkitektinn Katrín Ísfeld sá um að hanna breytingar á eldhúsi í Hafnarfirði. Í eldhúsinu var innrétting úr kirsuberjaviði og ákvað hún að nota hana. Til þess að gera eldhúsið skemmtilegra bætti hún við innréttingum í eldhúsið sem gerði það að verkum að vinnupláss varð mun meira. Katrín færði eldavélina og smíðaði utan um ísskápinn og efri skápana svo innréttingin flæddi betur í rýminu. Hún hækkaði skápinn sem bakaraofninn er í svo dæmi sé tekið. Hún lét setja svartar granítborðplötur á innréttinguna en til þess að gera eldhúsið ennþá vistlegra bætti hún við aukaeiningu sem er á gráfjólubláa veggnum. Um er að ræða stóran búrskáp og glerskáp og svo lét hún bæta við auka vinnuplássi úr graníti sem kemur í vinkil út frá innréttingunni. „Búrskápurinn er mjög skemmtilegur því hurðirnar hverfa eiginlega þegar hann er opnaður. Þetta er ekki hefðbundinn búrskápur með harmonikku-hurðum. Eldhúsið varð mun praktískara eftir breytingar enda miklu meira vinnupláss og skápapláss, segir Katrín Ísfeld.

martamaria@mbl.is