Raftónlistarmaðurinn Pan Thorarensen hefur gefið út talsvert af efni undir nafni Beatmakin' Troopa og einnig sem hluti Stereo Hypnosis. Þessa dagana er hann í stúdíói að vinna að nýju efni sem er væntanlegt á næstunni. Þá er hann að leggja lokahönd á bókanir fyrir tónleikaferðalag þeirra feðga, hans og Óskars, út í heim. Þá er undirbúningur kominn á fullt fyrir tónleikahátíðina „Extreme Chill Festival“ en hún verður haldin helgina 29. júní til 1. júlí næstkomandi. Pan deilir hér sínum óskalista.
Óskamaturinn? Það er hin fullkomna ORA-máltíð með öllu sem tilheyrir...kjötbollur í brúnni sósu beint úr dósinni, grænar baunir, rauðkál og gular baunir. Þessu er auðvitað skolað niður með ísköldum Kalda frá Árskógsströnd.
Draumabíllinn? Gamli góði Land Roverinn sem hefur alltaf sinn sjarma...ekki væri verra að hafa gamalreyndan bílstjóra með þar sem ég hef ekki ennþá náð mér í bílpróf!!!
Draumaverkefnið? Það var lengi vel að vinna með karli föður mínum, tónlistar- og listamanninum Óskari Thorarensen, sem er búinn að vinna í fjöldamörg ár við tónlist. Draumurinn hefur nú á síðustu árum ræst þar sem við höfum verið að vinna saman að tónlist sem rafdúettinn Stereo Hypnosis. Höfum við ferðast víða um heim og spilað á fjöldanum öllum af tónleikum ásamt því að gefa út 3 diska, koma á koppinn raftónlistarfestivalinu Extreme Chill Festival og raftónlistarkvöldunum Extreme Chill. Þannig að ég er að lifa draumaverkefnið mitt þessa dagana.
Hvað vantar á heimilið? Eftir að espresso-kaffikannan á heimilinu splundraðist í þúsund mola um jólin, er erfitt að fara fram úr á morgnana vitandi það að maður getur ekki hitað sér almennilegt kaffi.
Hvað langar þig sjálfan helst í? Ég hef nú yfirleitt ekki hátt um það ef mig langar í eitthvað...en innst inni langar mig rosalega í CANON EOS 5D MARK II-myndavélina sem ég er búinn að sjá í hillingum í þónokkurn tíma.
jonagnar@mbl.is