Fimmtudaginn 17. janúar sl. stóð Sjúkraliðafélag Íslands fyrir fundi vegna fyrirhugaðrar lokunar E-deildar Sjúkrahússins á Akranesi. Undirritaður var fenginn til að vera einn af frummælendum.
Skemmst er frá því að segja að ég lagði áherslu á það að í starfi mínu sem bæjarfulltrúi gerði ég mér glögga grein fyrir mikilvægi Sjúkrahússins, ekki eingöngu sem stærsta vinnustaðarins á Akranesi heldur líka sem heilsustofnunar í sem víðtækastri mynd.
Eftir fundinn höfðu margir af fundargestum samband við mig þar sem þeir töldu að það hefði vantað að fundurinn hefði samþykkt ályktun um miklivægi Sjúkrahússins á Akranesi og því að hafna bæri lokun E-deildarinnar. Vegna þessa og líka þar sem margir fundargestanna töldu að bæjarstjórn Akraness hefði ekki mótmælt af krafti fyrirhugaðri lokun deildarinnar óskaði undirritaður eftir því á bæjarstjórnarfundi 17. janúar sl. að eftirfandi yrði bókað í nafni allra bæjarfulltrúa á Akranesi. Við því var orðið og skrifuðu allir bæjarfulltrúar undir bókunina. Bókunin er svohljóðandi:
• Bæjarstjórn Akraness mótmælir á fundi sínum þriðjudaginn 17. janúar 2012 þeirri skerðingu á heilbrigðisþjónustu á Akranesi sem birtist í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2012. Þar eru framlög til Heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE) skorin það mikið niður að stjórnendur þar hafa neyðst til að grípa til þess úrræðis að leggja niður öldrunarlækningadeild Sjúkrahússins á Akranesi. Við það tapast 14 legurými og hátt í 30 manns missa vinnuna, eingöngu konur.
• Bæjarstjórn Akraness krefst þess að ríkisvaldið tryggi rekstur HVE þannig að á Akranesi sé unnt að halda fullri heilsugæsluþjónustu og bráðaþjónustu, þar með töldum skurðstofum, þannig að tryggt sé að m.a. fæðingardeild og slysamóttaka haldist óbreytt. Bent skal á að sjúkrahúsið á Akranesi er utan skilgreindra hamfarasvæða og þjónar því sem varasjúkrahús höfuðborgarsvæðisins ef til stórkostlegra náttúruhamfara kemur.
• Ennfremur krefst bæjarstjórn Akraness þess að ríkisvaldið tryggi að unnt sé að halda úti öldrunarþjónustu á Akranesi, bæði sjúkraþjónustu og endurhæfingu, sambærilegri og á sér stað fyrir lokun öldrunarlækningadeildarinnar á sjúkrahúsinu. Þessi þjónusta verði þá veitt í tengslum við HVE og Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimili aldraðra á Akranesi.
Rétt er að halda því til haga að oddvitar allra flokka sem eiga setu í bæjarstjórn Akraness hafa átt fundi með þingmönnum kjördæmisins, og þar með talinn velferðarráðherra, um málefni Sjúkrahússins á Akranesi og þar með stöðu E-deildarinnar. Auk þess var á þessum fundum fjallað um ýmis önnur vandamál í atvinnumálunum á Akranesi eins og t.d. lokun Sementsverksmiðjunar.
Þá vil ég vekja sérstaka athygli á því að svo virðist vera að þjónusta við bæjarbúa sé að sogast smátt og smátt til höfuðborgarsvæðsins. Arion banki hefur lokað útibúi sínu hér, HB-Grandi er búinn að loka skrifstofu sinni hér og Orkuveitan hefur lokað sinni skrifstofu hér hálfan daginn.
Ég óttast mjög að þær sparnaðaraðgerðir sem HVE, og öðrum heilsustofnunum á landsbyggðinni, er gert að framkvæma verði á endanum til þess að lokað verði fleiri deildum og önnur þjónusta hér á Akranesi og annars staðar úti landi verði færð á fyrirhugað hátæknisjúkrahús í Reykjavík. Það er mín skoðun að nær væri að efla starfsemi svokallaðara Kragasjúkrahúsa (Akranes, Keflavík og Selfoss) samhliða endurbótum í Reykjavík og hætta við byggingu nýs hátæknisjúkrahúss, sérstaklega þar sem því er hugsaður staður.
Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akranesi.