Guðmundur Gíslason fæddist í Reykjavík 1. janúar 1920. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 7. janúar 2012.
Guðmundur var jarðsunginn frá Dómkirkjunni 19. janúar 2012.
Það var heiður að fá að halda í höndina á þér þegar þú kvaddir okkur, elsku afi minn. Ég sagði þér hvað amma elskaði þig mikið og ætti eftir að sakna þín svo innilega. Við sem eftir lifum höfum minningarnar í hjarta okkar og á þessari stundu flæða þær yfir mig.
Afi, þú fórst með mig í ferðir út á land á Orra með pabba og vinum þínum. Sem krakki fékk ég að vera hjá þér og ömmu öll sumur á Rönd. Þú smíðaðir kassabíl með mér og Hilmari og gafst mér hest sem ég skírði Kóng í höfuðið á vini þínum. Ég man þegar við vorum í útreiðartúrum með Lubba í Dead Walley að elta indjána. Sú minning um þig sem ber þó einna hæst er allur sá tími sem við fengum að vera saman. Man ekki eftir máltíð með þér sem var án sögu og langrar umræðu um skemmtilega hluti.
Þegar ég lít til baka geri ég mér grein fyrir því hvað þú varst framsýnn og ákveðinn maður en samt svo raunverulegur og skemmtilegur.
Þú vildir alltaf fá góða þjónustu og það voru þér mikil vonbrigði ef eitthvað var ekki nógu vel gert, þótti það svo dapurt að fólk hefði ekki metnað, eða hefði ekki fengið þjálfun í að gera hlutina vel. Man eitt skiptið að borin var á borð rifjasteik og þú spurðir: „Hvað er þetta? Þetta er ekki það sem ég pantaði, þetta er af allt annari skepnu.“ Svo fóru þykku virðulegu gleraugun niður á borðið.
„Að gera allt sem maður getur til þess að passa upp á hlutina, þá er ekki hægt að segja eftir á að það hafi ekki allt verið gert.“ Þetta lýsir afa vel enda hefur allt sem hann hefur gert í gegnum tíðina enst vel og dugað. Pabbi hefur oft sagt í gríni að bílarnir sem afi hefur átt séu betri en nýir.
Ég man hvað þú varst stoltur af kirkjunni sem þið amma byggðuð. Hvert einasta smáatriði var úthugsað og sérvalinn maður í hvert verkefni. Kirkjan er minnisvarði um hið gamla og sýnir framsýni og framtakssemi ykkar beggja.
Afi þú varst alltaf að sýsla eitthvað, byggja hús, kirkju, hitta sendiherra, fara á hestbak, bíltúr með vinum og ferðast um fjarlægð lönd með ömmu. Þú byggðir upp glæsilegt fyrirtæki á sögulegum tímum og sigldir í gegnum margar lægðir og hæðir. Alltaf varstu að segja mér sögur af því hvernig best væri að tala við þennan og hinn, t.d. varðandi Bretana, aldrei að koma þeim í þá stöðu að segja nei, því það væri svo erfitt fyrir þá að taka það til baka.
Elsku afi minn, mikið er gott að minnast þín og fá straum um hjartans rætur. Amma og ég höfum verið að rifja upp saman okkar samverustundir í gegnum árin. Afi, þú skilur svo fallegar minningar eftir þig. Bless, afi nafni.
Guðmundur Gíslason.