Vöruflutningar Verði tillögur starfshóps innanríkisráðherra að veruleika munu flutningaskip sjást að nýju við strendur landsins á næsta ári.
Vöruflutningar Verði tillögur starfshóps innanríkisráðherra að veruleika munu flutningaskip sjást að nýju við strendur landsins á næsta ári. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Starfshópur um strandsiglingar leggur til að leitað verði tilboða í siglingarnar samkvæmt ákveðnum forsendum þar sem boðið verði í meðgjöf ríkisins, þ.e.

Fréttaskýring

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Starfshópur um strandsiglingar leggur til að leitað verði tilboða í siglingarnar samkvæmt ákveðnum forsendum þar sem boðið verði í meðgjöf ríkisins, þ.e. ríkisstyrki, til nokkurra ára meðan siglingarnar komi undir sig fótunum. Miðað er við tilraunaverkefni til nokkurra ára og að því loknu standi þær undir sér. Útboð verði á þessu ári og tilraunasiglingar gætu þá hafist í byrjun næsta árs.

Innanríkisráðherra skipaði snemma á síðasta sumri starfshóp til að leggja fram tillögur um hvernig standa megi að því að koma á strandsiglingum að nýju. Nefndin skilaði tillögum sínum í fyrradag. Markmiðið er að hefja strandsiglingar sem tryggi hagkvæma sjóflutninga á vörum innanlands og stuðli að lægri flutningskostnaði, jákvæðri byggðaþróun með auknum tækifærum og samkeppnishæfni fyrirtækja á landsbyggðinni.

70 þúsund tonn í byrjun

Niðurstaða hópsins er sú að leggja til að strandsiglingar verði boðnar út. Gerð hafa verið drög að rekstraráætlun fyrir skipið og undirbúin gögn fyrir hugsanlegt útboð en Ríkiskaup voru til ráðgjafar um þann þátt. Samkvæmt markaðsrannsóknum sé líklegt að flytja megi í strandsiglingum rúmlega 70 þúsund tonn á ári til að byrja með. Þess má geta að þegar Eimskip hætti strandsiglingum, síðast skipafélaga um miðjan síðasta áratug, flutti félagið um 160 þúsund tonn árlega.

Hópurinn telur að flutningar muni aukast þegar þjónustan hefur fest sig í sessi. Miðað er við að skip sigli frá höfuðborgarsvæðinu umhverfis landið í viku hverri og sinni flutningum milli hafna á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Gefi það möguleika á flutningi milli þessara hafna bæði á hráefni og afurðum fyrir framleiðslufyrirtæki, ekki síst í sjávarútvegi, en einnig á margs konar dagvöru fyrir verslun og þjónustu.

Starfshópurinn ákvað að kanna flutningsþörfina. Sendir voru út spurningalistar til 132 aðila sem taldir voru hafa hag af því að nýta sér strandsiglingarnar. Alls bárust 60 svör, sem gerir um 45% svarhlutfall. Verður þetta að teljast lág prósenta þegar um er að ræða mikið hagsmunamál landsbyggðarinnar.

Niðurstaðan var sú að mest flutningsþörf var til og frá þremur stöðum á Vestfjöðrum, þ.e. Ísafirði, Patreksfirði og Bíldudal, svo og Akureyri. Meginhlutinn, eða 90%, fer til höfuðborgarsvæðisins.

Guðmundur Kristjánsson hafnarstjóri á Ísafirði var formaður starfshópsins. Hann segir að hópurinn hafi ekki talið rétt að nefna neinar tölur um hve ríkisstyrkir þyrftu að vera háir þar sem strandsiglingar muni væntanlega fara í útboð. Nefndarmenn hafi þó vonir um að ekki verði um háar upphæðir að ræða. Guðmundur vonast til að skipafélög sýni þessu verkefni áhuga. „Ég get upplýst að það hafa komið fyrirspurnir erlendis frá,“ segir Guðmundur.

Afleiðing þess að strandflutningar lögðust af var m.a. sú að vöruflutningar fluttust á þjóðvegi landsins. Síðar gerðist það að hætt var að flytja olíu og bensín sjóleiðina og eina olíuskip Íslendinga var selt úr landi. Þeir flutningar fara nú um þjóðvegina. Með tilkomu strandflutninga mun álagið á þjóðvegina minnka. Það með mun draga úr sliti á þjóðvegunum og slysahættan minnka.

KRÖFUR GERÐAR TIL SKIPS

Verði minnst 1.500 tonn

Starfshópurinn gerir ákveðnar kröfur til skips sem notað yrði til flutninganna. Skal það geta lestað að minnsta kosti 1.500 tonn, vera með síðuport og með frystilest fyrir 1.000 tonn að lágmarki. Þá skal skipið hafa pláss fyrir að minnsta kosti 20 gámaeiningar og krana sem lyft getur 40 feta gámi allt að 25 tonnum í 20 metra frá síðu skipsins. Einnig er áskilið að umsjónaraðili sé í hverri viðkomuhöfn og gert er að skilyrði að bjóðandi hafi minnst tveggja ára reynslu af rekstri flutningaskipa.