Kristján Jónsson
kjon@mbl.is
Norðmenn hafa nú skipt um skoðun og vilja koma í veg fyrir að Kína fái fasta áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu, að sögn Aftenposten . Ástæðan er sögð vera að Kínverjar hafa neitað að eiga eðlileg diplómatísk samskipti við Norðmenn eftir að kínverski mannréttindafrömuðurinn Liu Xiaobo hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2010.
„Meðan kínversk stjórnvöld neita að tala við norska ráðamenn er erfitt fyrir Noreg að samþykkja að Kína fái fasta áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu,“ hefur norska blaðið eftir háttsettum en ónafngreindum embættismanni. Þegar AFP -fréttastofan spurði utanríkisráðuneytið í Ósló álits á fréttinni neitaði það að tjá sig.
Nóbelsnefndin er óháð ríkisstjórn Noregs en samt sem áður sökuðu Kínverjar norsk stjórnvöld um ótilhlýðileg afskipti af innanlandsmálum með verðlaunaveitingunni. Þeir hafa sýnt óánægju sína með ýmsum hætti, meðal annars hefur norskum fyrirtækjum gengið illa að gera viðskiptasamninga í Kína. Einnig hafa kínverskir ráðamenn neitað að eiga fundi með norskum kollegum sínum.
Rússar og Kanadamenn hafa lýst nokkrum efasemdum um aðild áheyrnarfulltrúa og nú bætast Norðmenn í þann hóp. Í ágúst 2010, skömmu áður en Liu hreppti verðlaunin, var Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, í opinberri heimsókn í Kína. Sagðist hann þá styðja aðild Kína og hann vonaðist til þess að umsókn þeirra yrði samþykkt einum rómi.
Aukinn áhugi
» Átta ríki, þ. á m. Ísland, eiga aðild að Norðurskautsráðinu. Kína, ESB og Suður-Kórea vilja fá áheyrnaraðild.
» Margt ræður þeim áhuga, bæði vonin um að siglingaleiðir opnist á svæðinu, einnig verðmæt efni, olía og fleira, á hafsbotni.