Ferðamenn Í fyrra komu tæplega 566 þúsund ferðamenn til landsins. Áætlað hefur verið að um 8% erlendra ferðamanna sem koma til Íslands notfæri sér heilsuferðaþjónustu af einhverju tagi. Ef rétt er hafa þeir því verið nálægt 50 þúsund á seinasta ári. Þeir hefðu ekki verið sviknir af leirbaði hjá HNLFÍ.
Ferðamenn Í fyrra komu tæplega 566 þúsund ferðamenn til landsins. Áætlað hefur verið að um 8% erlendra ferðamanna sem koma til Íslands notfæri sér heilsuferðaþjónustu af einhverju tagi. Ef rétt er hafa þeir því verið nálægt 50 þúsund á seinasta ári. Þeir hefðu ekki verið sviknir af leirbaði hjá HNLFÍ. — Morgunblaðið/ÞÖK
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Aukin þjónusta við almenning er í undirbúningi á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands (NLFÍ) í Hveragerði, þar sem m.a. verði boðið upp á heilsudvöl í lengri og skemmri tíma auk lækningatengdrar ferðaþjónustu.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Aukin þjónusta við almenning er í undirbúningi á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands (NLFÍ) í Hveragerði, þar sem m.a. verði boðið upp á heilsudvöl í lengri og skemmri tíma auk lækningatengdrar ferðaþjónustu. Þessi þjónusta verður ný viðbót við þá endurhæfingu og meðferð sem boðið hefur verið upp á og er hugsuð fyrir þá sem vilja kaupa sér heilsudvöl á Heilsustofnuninni.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri HNLFÍ, gerir sér vonir um að hægt verði að taka á móti fyrstu hópunum í vor. „Við höfum alltaf verið með aukaþjónustu við fólk þótt það komi ekki hingað á vegum lækna og verðum með það áfram.“ Heilsustofnunin gerði tilraun í heilsutengdri ferðaþjónustu í fyrrasumar í tvo mánuði og segir Ólafur að eftirspurn eftir slíkri þjónustu sé vaxandi en um 8% erlendra ferðamanna sem koma til landsins séu að sækjast eftir heilsutengdri ferðaþjónustu. HNLFÍ vill gjarnan hasla sér þar völl og ná til svokallaðra heilsuferðamanna.

Samið um þverfaglega endurhæfingu fyrir sjúklinga

Þjónustan hjá HNLFÍ eflist enn því um áramót var undirritaður nýr þjónustusamningur við Sjúkratryggingar Íslands um þverfaglega endurhæfingu fyrir sjúkratryggða einstaklinga. Samningurinn er til næstu fimm ára. Boðið verður upp á þjónustu við einstaklinga sem þurfa á þyngri endurhæfingu að halda í kjölfar sjúkrahúsvistar og/eða vegna tiltekinna sjúkdóma.

Ólafur segir að tuttugu rúm verði sérstaklega til reiðu fyrir sjúklinga sem koma af sjúkrahúsunum. Mikið samstarf verði við Landspítalann og jafnvel fleiri spítala um þessa endurhæfingu.

Hugsanlega þarf að bæta við húsnæði vegna aukinnar starfsemi sem fyrirhuguð er. „Ætli við bætum ekki við okkur í rólegum skrefum eftir því hvernig aðsóknin verður en það er alltaf nóg að gera.“

VELLÍÐUNARÞJÓNUSTA OG HÁTÆKNILÆKNINGAR

Það er eftir miklu að slægjast

Fjölmörg tækifæri eru á eflingu heilsuferðaþjónustu á Íslandi.

Dagný Pétursdóttir, stjórnarfor- maður Samtaka um heilsuferðaþjónustu og framkvæmdastjóri Bláa lónsins, bendir á að heilsuferðaþjónusta er víðtækt hugtak.

„Við skilgreinum hana sem allar ferðir þar sem tilgangur ferðarinnar er að efla heilsu ferðamannsins. Þetta geta verið dekurferðir þar sem fólk er að næra líkama og sál og allt upp í það að vera hátæknilækningar,“ segir hún.

„Við stöndum sterkt að vígi í vellíðunarferðaþjónustu og á nokkrum sviðum lækningaferðaþjónustu. Það er eftir miklu að slægjast því rannsóknir hafa sýnt að ferðamaður sem notfærir sér heilsuferðaþjónustu skilur eftir sig þrisvar sinnum hærri gjaldeyristekjur en almennir ferðamenn,“ segir Dagný.

Dvelja í lengri tíma en áður

Markaðssetning á ferðaþjónustu til lækninga er þó flókin að sögn hennar. Veikt gengi krónunnar hefur hjálpað til að undanförnu því ferðamenn sem koma í því skyni að njóta lækningaþjónustu dvelja í lengri tíma en áður.

Þannig er t.d. orðið algengt að þeir sem sækja sér meðferð vegna psoriasis í Bláa lóninu séu þar í tvær til fjórar vikur, að sögn hennar.