Nörd „Craig Finn er ekkert ósvipaður Bruce Springsteen, hetjunni sinni – ef Springsteen væri aðeins meiri nörd,“ segir m.a. í dómi Arnars Eggerts.
Nörd „Craig Finn er ekkert ósvipaður Bruce Springsteen, hetjunni sinni – ef Springsteen væri aðeins meiri nörd,“ segir m.a. í dómi Arnars Eggerts.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Craig Finn er ekkert ósvipaður Bruce Springsteen, hetjunni sinni – ef Springsteen væri aðeins meiri nörd. Eða ef Springsteen væri leiðtogi Weezer fremur en E-Street Band.

Craig Finn er ekkert ósvipaður Bruce Springsteen, hetjunni sinni – ef Springsteen væri aðeins meiri nörd. Eða ef Springsteen væri leiðtogi Weezer fremur en E-Street Band.

Finn þessi hefur getið sér frægð sem forvígismaður hinnar mjög svo ágætu rokksveitar The Hold Steady sem hefur notið mikillar hylli músíkpælara og er í áskrift að fimm stjörnu dómum hjá helstu tónlistarbiblíunum. Tónlist The Hold Steady er annars athyglisverður sambræðingur, kántrískotið og hrátt pöbbarokk með oft og tíðum epískum, „stórum“ viðlögum, ásamt glúrnum og gáfumannalegum textum Craigs Finns sem eru punkturinn yfir i-ið. Svona eins og ef Morrissey hefði verið aðalsöngvarinn í Faces (æ Arnar, hættu nú þessum samlíkingum!).

Clear Heart Full Eyes er hins vegar fyrsta sólóplata Finns. Það er kántríblær yfir flestum lögum (platan var tekin upp í Austin en Finn býr í New York) og þegar Finn lýsir því yfir að „all this small talk makes me nervous“ í opnunarlaginu, „Apollo Bay“, er ljóst hvert halda skal. Finn er í raun réttri skáld sem vinnur með rokksveit og hann „talsyngur“ sig í gegnum vinjetturnar sem liggja inni í lögunum. Platan fer ágætlega af stað, fyrstu lögin búa yfir tilfinningalegri dýpt sem er giska áhrifarík en eftir því sem á líður fer platan að þynnast. Finn ryður textunum út úr sér en innihaldið er misáhugavert og sum lögin ná einfaldlega ekki höfn.

Þetta er ekki alslæm plata en er það ekki merkilegt hversu líkar að gæðum þessar sólóplötur manna sem hafa orðið frægir í gegnum hljómsveitir eru? Þær eru iðulega skugginn af því sem þeir hafa verið að gera með hljómsveitunum (Julian Casablancas, Brandon Flowers, Thom Yorke o.s.frv.). Það ráða greinilega ekki allir við það að fara út fyrir hið svokalla þægindasvæði.

Arnar Eggert Thoroddsen

Höf.: Arnar Eggert Thoroddsen