Sigríður Gísladóttir fæddist á Hofsstöðum í Garðahreppi 20. febrúar 1921. Hún lést á Vífilsstöðum 6. janúar sl.
Útför Sigríðar var gerð frá Vídalínskirkju miðvikudaginn 18. janúar 2012.
Við kveðjum Sigríði Gísladóttur frá Hofsstöðum í Garðabæ, en hún lést á Vífilsstöðum 6. janúar síðastliðinn. Saga Siggu á Hofsstöðum og fjölskyldu hennar er samofin sögu og uppbyggingu Garðabæjar. Kirkjan, tónlistarskólinn, íbúðir aldraðra og aðrar byggingar í miðbænum eru byggðar á gömlu túnunum systranna á Hofsstöðum. Hofsstaðaskóli var nærri tvo áratugi í húsnæði Vídalínskirkju og náði skólalóðin nánast að íbúðarhúsinu á Hofsstöðum. Samskipti við þau hjónin á Hofsstöðum Sveinbjörn og Sigríði voru því eðlilega mikil. Aldrei bar þar nokkurn skugga á. Sigga á Hofsstöðum varð starfsmaður skólans eftir nokkurra ára starfsemi hans í safnaðarheimilinu, en hætti störfum þegar skólinn flutti í Hofsstaðamýri árið 1994.
Hún var dugleg og góður starfsmaður, alltaf jákvæð og hlýleg í viðmóti. Það var stutt í brosið enda horfði hún yfirleitt á jákvæðar hliðar lífsins. Hún var látlaus í fasi og laus við allan hégóma. Öll þau ár sem við höfðum samskipti minnist ég þess aldrei að hún hafi skipt skapi eða sagt eitthvað neikvætt um menn eða málefni. Sigga vann í skólanum eftir hádegi en kom oft í kaffi á morgnana. Það var ýmislegt skrafað þegar þær voru saman á kaffistofunni, Stella sem nú er látin, Sigga á Hofsstöðum og Kristín Hólm, allar vel lesnar og fróðar og þekktu einnig vel til íbúanna í bænum og bæjarmálanna.
Þegar skólinn flutti í Hofsstaðamýri eða Rauðumýri eins og staðurinn heitir, þar sem skólinn stendur, færði Sigga skólanum mynd að gjöf. Myndin var af Hofsstaðabænum og máluð af listamanninum Árna Elvar.
Þegar Hofsstaðaskóli varð 20 ára árið 1997 voru mikil hátíðarhöld í skólanum. Var þá ákveðið að tilnefna „heiðursborgara Hofsstaðaskóla“. Margir komu til álita en við umræður hjá starfsfólkinu kom fljótlega í ljós að heiðra bæri frú Sigríði Gísladóttur á Hofsstöðum.
Við hátíðlega athöfn í skólanum var hún síðan heiðruð og fékk titilinn: „Heiðursborgari Hofsstaðaskóla“ og heiðursskjal því til staðfestingar. Ég held að Sigga hafi haft ánægju af og þótt vænt um þetta uppátæki okkar og fundið þá væntumþykju og hlýju, bæði frá starfsfólki og nemendum, sem fylgdi nafnbótinni.
Sigga var traustur vinur og góður vinnufélagi. Við samstarfsmenn hennar eigum margar góðar minningar um hana. Við sendum börnum hennar og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur við fráfall hennar.
Hilmar Ingólfsson,
fyrrverandi skólastjóri Hofsstaðaskóla.
Það voru góðir dagar við leik og aðallega að leika við Sveinu heitna sem fór alltof snemma. Ég vil þakka Siggu fyrir góð kynni og votta börnum hennar, barnabörnum og fjölskyldum innilega samúð og einnig Halldóru systur hennar.
Takk fyrir samferð Sigga mín, minningin um góða konu lifir.
Guð blessi ykkur öll.
Kristín Jóhannesdóttir.