Á einkennilegum tímum gerist ýmislegt sem jafnvel hugmyndaríkasta fólk hefði ekki látið sér til hugar koma.

Á einkennilegum tímum gerist ýmislegt sem jafnvel hugmyndaríkasta fólk hefði ekki látið sér til hugar koma. Einn morguninn vöknuðum við til dæmis upp við það að Mikki mús og félagar hans í Andabæ höfðu skrifað undir áskorun til forseta Íslands um að bjóða sig fram til endurkjörs. Við höfum ítrekað frétt af mikilvægum erlendum samböndum Ólafs Ragnars Grímssonar, en þessi öflugi stuðningur frá jaðarríki var kannski ekki beinlínis fréttin sem við áttum von á. En eins og Eiríkur Jónsson myndi segja: Þetta er skúbb!

Það er líka fréttnæmt að þingmaður Hreyfingarinnar, sem þráir ekkert heitara en að lifa í byltingarríki, og gerir allt til að reyna að skapa byltingarástand, skuli ganga á milli þingmanna og biðja þá að skrifa undir vantraustsyfirlýsingu á forseta Alþingis. Hver er svo hinn mikli glæpur forseta Alþingis? Jú, sá að fara eftir lögfræðiáliti og setja mál á dagskrá. Reyndar telur byltingarsinninn að forsetanum hafi orðið ýmislegt annað á í starfi sínu og á þar sennilega við að forsetinn hefur verið duglegur við að hasta á þingmenn sem hafa ekki kunnað sig í ræðustól og orðið sér til skammar með framkomu sinni. Höfuðglæpur forsetans mun þó ekki vera þessar ávítur heldur það að hafa sett á dagskrá þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar um að Alþingi falli frá ákæru á hendur Geir Haarde.

Svo kom sem betur fer í ljós að alltof margir þingmenn voru ekki hrifnir af pólitískum réttarhöldum og samþykktu ekki að tillögu Bjarna yrði vísað frá. Það framkallaði ofsafengna reiði á ýmsum stöðum því sannir byltingarmenn þrá pólitísk réttarhöld og telja að með þeim fari fram mikilvæg hreinsun. Þeim finnst verulega vont þegar menn átta sig ekki á lögmálum byltingarinnar.

Ég hélt í barnaskap mínum að Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, væri með hjarta jafnaðarmanns og stæði með réttlætinu, en svo reynist hún vera alveg bálvond vegna þess að hlutirnir fóru ekki eins og hún vildi. Sumir félaga hennar í Samfylkingunni deila með henni fýlunni og vonskunni. Viðbrögð þessa fólks eru svo ofsafengin og hatursfull að maður fagnar því heilshugar að vera ekki í flokki með því.

Það voru ekki Össur Skarphéðinsson, Árni Páll Árnason, Kristján Möller og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sem brugðust og heldur ekki Ögmundur Jónasson, Atli Gíslason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Jón Bjarnason og Lilja Mósesdóttir. Staðreyndin er sú að á sínum tíma sýndu ákveðnir þingmenn í Samfylkingunni af sér lúalega framkomu þegar þeir greiddu atkvæði með því að einn stjórnmálamaður yrði leiddur fyrir rétt. Af hverju horfast þessir þingmenn ekki í augu við ómerkilega gjörð sína í stað þess að æpa að ekki sé verið að gera upp hrunið? Hrunið verður aldrei gert upp með því að fórna einum manni. kolbrun@mbl.is

Kolbrún Bergþórsdóttir

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir