Reynir Ingibjartsson hefur búið í tuttugu ár í Dvergholti. Hús þar voru mörg byggð á vegum samvinnufélaga.
Reynir Ingibjartsson hefur búið í tuttugu ár í Dvergholti. Hús þar voru mörg byggð á vegum samvinnufélaga. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nokkrir litlir götustubbar með fáeinum húsum hver liggja út frá Háholti, sem gengur þvert yfir Hvaleyrarholtið í Hafnarfirði. Yfirleitt eru aðeins örfá hús við hverja þessara gatna og þá gjarnan fjölbýli.

Nokkrir litlir götustubbar með fáeinum húsum hver liggja út frá Háholti, sem gengur þvert yfir Hvaleyrarholtið í Hafnarfirði. Yfirleitt eru aðeins örfá hús við hverja þessara gatna og þá gjarnan fjölbýli. Flest eru húsin byggð um 1990 en þá var Hafnarfjarðarbær í miklum vexti og brjóta þurfti ný lönd undir byggingar. „Hér er þverskurðurinn, fólk á öllum aldri sem margt hvað hefur búið hér alveg frá upphafi. Sjálfur kom ég hingað með minni fjölskyldu haustið 1992 og ætli við förum héðan í bráð. Höfum að minnsta kosti kunnað vel við okkur,“ segir Reynir Ingibjartsson sem býr við Dvergholt.

Samvinnustefnan er góð

„Það er afskaplega vel hugsað um íbúana hér og vel staðið að öllu,“ segir Reynir. „Á báðum endum Háholts eru leikskólar; Vesturkot sem snýr út að sjónum og Álfasteinn þar sem snýr niður að Reykjanesbraut. Barnafólk getur því verið afar ánægt með þá þjónustu sem bærinn veitir. Raunar segir sagan að verslun hafi átt skv. skipulagi að vera hér á svæðinu en enginn kaupmaður fengist til að byggja. Bærinn hafi þá fyllt inn í gatið með því að byggja leikskóla. Já, og svo höfum við líka hér Hvaleyrarskóla sem er hefðbundinn grunnskóli – og önnur þjónusta er hér á næstu grösum.“

Tvö fjölbýlishús við Dvergholt og Háholt voru á sínum tíma byggð af húsnæðissamvinnufélaginu Búseta. Undir þess merkjum hefur í tímans rás verið byggður mikill fjöldi íbúða – þar sem félagsmenn greiða fyrir búseturétt og svo mánaðarlegt búsetugjald af íbúðinni.

„Húsnæðissamvinnufélögin áttu fylgi að fagna alveg fram undir síðustu aldamót þegar áherslur breyttust og séreignarstefnan varð aftur ríkjandi. Ég vonast samt til þess að þessi samvinnustefna komist aftur á skrið, því hún er afskaplega góður og hagkvæmur kostur,“ segir Reynir sem lengi starfaði á vettvangi búsetufélaganna og er málum því kunnugur.

Raunar hefur Reynir alla tíð verið mjög virkur í félagsstarfi. Er meðal annars driffjöður í starfi grasrótarfélagsins Hraunavina sem hefur látið til sín taka í umhverfismálum. Haft á sinni stefnuskrá að vernda hraunin við Hafnarfjörð, Garðabæ og á Álftanesi og vinna þar að tiltekt og umbótum ýmiskonar.

Tekið til hendinni

„Okkur hefur orðið vel ágengt,“ segir Reynir og vísar þar meðal annars til hreinsunarátaks í hrauninu vestan við Straumsvík sl. haust. Þar tóku Hraunavinir og fleiri rækilega til hendi og ekið var á brott tugum tonna af rusli; brotajárni, bílhræjum og jafnvel heilu búslóðunum. Þannig virðast margir telja að hraunin með sínum gjótum og sprungum taki við öllu, sem auðvitað er hin mesta firra.

„Og við ætlum ekki að láta hlutina fara aftur í sama farið,“ segir Reynir. „Innan okkar vébanda eru til dæmis sérstakir ármenn sem fylgjast með stöðunni þegar gröfur birtast og spyrna við fæti ef þarf. Þannig tel ég okkur til dæmis hafa bjargað því að ekki fór verr í Gálgahrauni á leiðinni út á Álftanes. Byggingaráform þar eru með allt öðrum hætti nú en áður og ég er ekki frá því að mörgum hafi brugðið við þegar þeir sáu að fórna átti klettum sem Kjarval hafði málað forðum. Það má því segja að listaskáld litanna hafi komið okkur til hjálpar,“ segir Reynir sem telur mikilvægt að hver maður taki – eins og að framan er lýst – virkan þátt í samfélagi sínu og vinni að breytingum til bóta.

„Þetta er ekki síður mikilvægt en taka afstöðu og mæta á kjörstað. Ekkert gerist af sjálfum sér,“ segir Reynir Ingibjartsson.

sbs@mbl.is