Baksvið
Ingveldur Geirsdóttir
ingveldur@mbl.is
Ríkið, Vestmannaeyjabær og lífeyrissjóðir hafa orðið ásátt um að ganga til könnunarviðræðna um hugsanlega stofnun hlutafélags um smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði að það væri mikill áhugi hjá öllum þessum aðilum að skoða málin niður í kjölinn en ekkert væri afráðið með niðurstöðuna. Gert er ráð fyrir að ný ferja muni kosta um fjóra milljarða. Kom þetta fram á blaðamannafundi með fulltrúum innanríkisráðuneytisins, Vestmannaeyjabæjar, Siglingastofnunar og Vegagerðarinnar í gær.
Þá kom fram í máli Hermanns Guðjónssonar siglingamálastjóra að ljóst væri að ný ferja þyrfti að vera grunnristari en núverandi Herjólfur og gott þyrfti að vera að stýra henni í miklum vindi. Ferjan þyrfti ekki að vera jafnstór og núverandi Herjólfur þar sem um styttri siglingaleið væri að ræða og hægt að fara fleiri ferðir.
Bjóða út siglingar til 2015
Í máli Ögmundar kom fram að siglingar í Landeyjahöfn yrðu verulegum takmörkum háðar meðan siglt væri á núverandi skipi og smíði nýrrar ferju því forgangsatriði. Stefnt er að því að hún komist í gagnið í síðasta lagi á árinu 2015. Fram til þess tíma þarf að leysa samgöngumálin til Eyja en siglingar núverandi Herjólfs í Landeyjahöfn hafa gengið brösulega eins og kunnugt er.Ákveðið hefur verið að bjóða út að nýju siglingar til Vestmannaeyja. Vegagerðin bauð síðast út rekstur siglinga Herjólfs milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar árið 2005. Samið var við Eimskip hf. sem hefur síðan 1. janúar 2006 sinnt þessu verkefni. Núverandi samningur rennur út 1. maí næstkomandi og hefur verið ákveðið að bjóða reksturinn út að nýju og mun nýr samningur gilda frá 1. maí 2012 þar til ný ferja hefur verið smíðuð og tilbúin til að taka við af núverandi ferju. Landeyjahöfn og Þorlákshöfn verða báðar notaðar við siglingar til Eyja til 2015 eins og verið hefur síðan Landeyjahöfn var opnuð sumarið 2010.
„Við ætlum að reyna að halda áfram siglingum í Landeyjahöfn eftir því sem frekast er kostur og útboðið tekur mið af því. Landeyjahöfn verður áfram aðalhöfnin á þessum millibilstíma til 2015. Við erum staðráðin í að gera það allra besta fyrir þá sem nýta sér þennan þjóðveg,“ sagði Ögmundur.
Spurður út í kostnað við nýja ferju og framkvæmdir við Landeyjahöfn svarar Ögmundur að þessar samgönguframkvæmdir hafi ekki verið dýrar umfram það sem gerist í öðrum landshlutum. „Við erum að tala um ferju sem er ekki helmingurinn af kostnaðinum við meðalstór jarðgöng. Vestmannaeyingar hafa verið afskiptir í þessu efni og þeir hafa búið við lakari samgöngur en aðrir. Við erum að reyna að gera allt sem við getum til að bregðast við því.“
Reyna að draga úr sandburði
Samhliða því að vinna að því að fá nýja ferju og bjóða út rekstur Herjólfs að nýju verður áfram reynt að bæta hafnaraðstöðuna í Landeyjahöfn. „Það er staðreynd sem verður ekki horft framhjá að náttúruöflin settu strik í reikninginn. Við erum núna að skoða með hvaða hætti við getum mætt því. Siglingastofnun hefur unnið afar vel að þessum málum og leitað ráðgjafar að utan, það verður framhald á slíkri ráðgjafarvinnu,“ sagði Ögmundur.Siglingastofnun endurskoðar nú útreikninga á efnisburði og er lögð áhersla á að skýra byrjunarörðugleika tengda sandburði og vinna að lausnum til að draga úr honum með ákveðnum aðgerðum. Meðal annars er til skoðunar uppbygging á rifi sem skýlir höfninni og dregur úr sandburði auk fasts dælubúnaðar.
BÆJARSTJÓRINN
Þjóðvegur í sundur
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, er sáttur við framtíðarlausnina á samgöngum til Eyja. Hann segir þó ófremdarástand ríkja í dag. „Þetta er þjóðvegur sem er í sundur. Við erum þess fullviss að eftir 2015 verði þessir erfiðleikar úr sögunni en til þess dags verða samgöngurnar eflaust erfiðar yfir vetrartímann. Eitt af því sem við heimamenn höfum viljað skoða er hvort það séu til farþegabátar með ótakmarkað haffæri á þessu svæði sem gætu þá haldið höfninni opinni jafnvel þótt Herjólfur sé að glíma við dýpisvandamál,“ segir Elliði.Með tilkomu Landeyjahafnar jókst farþegafjöldi á milli lands og Eyja úr 127.000, sem hann var síðasta heila árið sem Herjólfur sigldi til Þorlákshafnar, í 270.000 fyrsta árið sem hann sigldi í Landeyjahöfn, þrátt fyrir frátafir. „Það er miklu hagkvæmara að sigla í Landeyjahöfn. Rekstrarkostnaðurinn við 25 mínútna siglingu er allt annar en við þriggja klukkustunda siglingu. Það er miklu dýrara fyrir ríkið að nota þessar óhagkvæmu samgöngur til Þorlákshafnar áfram en að byggja upp Landeyjahöfn.“