Nada Surf er ein af þessum hljómsveitum sem hafa þurft að glíma við lúxusvandamálið að vera eins smells sveitir. Síðan hinn bitri andhetjusöngur Popular tröllreið öllu árið 1996 hefur sveitin ekki náð að fylgja vinsældunum eftir og var þar af leiðandi leyst undan samningi við plötufyrirtæki sitt. Nú gefur sveitin út hjá óháðu fyrirtæki og hefur gefið reglulega út plötur síðastliðinn áratug. Sveitin spilar bandarískt háskólarokk sem er frekar formúlukennt og fyrirsjáanlegt. Ýmislegt er ágætlega gert en einhvern veginn rennur platan alltof áreynslulaust í gegn. Hér er engin áhætta tekin og þar af leiðandi verður útkoman auðmelt og bitlaus. Líklega dugar hún þó til að halda uppi stemningunni á skólaböllunum sem sveitin hóf ferilinn á að úthúða og framlengja þar með ferilinn hjá þessum miðaldra háskólarokkurum um stutt skeið. Eins og þeir segja sjálfir: „It's never to late for teenage dreams.“
Hallur Már