Um páskana verður hátíðin Aldrei fór ég suður haldin í áttunda sinn á Ísafirði. Hún varð upphaflega til sem skyndihugmynd hjá þeim feðgum Mugga og Mugison. „Síðan vatt þetta hratt upp á sig,“ segir pabbinn en hann hefur eldað fyrir heljarinnar matarveislur fyrir tónlistarmenn sem koma fram á hátíðinni. Þótt Guðmundur sé menntaður skipstjóri hefur hann alla tíð haft mikinn áhuga á mat og matargerð. „Mér finnst gott að borða og gaman að elda,“ segir hann. Guðmundur á stórt safn matreiðslubóka á mismunandi tungumálum. „Ég hef gaman af því að lesa matreiðslubækur og hef safnað þeim í áratugi. Ég spái í uppskriftirnar og spekúlera í þeim, enda hef ég ánægju af því að prófa nýjungar.“
Í Malasíu í þrjú ár
„Ég bjó í Malasíu í þrjú ár og þar lærði ég að nota framandi krydd og elda annars konar mat. Þegar ég kom heim aftur langaði mig þó mest í bjúgu með uppstúf, pylsu á Bæjarins bestu, saltkjöt með kartöflumús og siginn bútung með mörfloti,“ segir Guðmundur sem er alinn upp í Bolungarvík en hefur unnið og starfað víða um heim.“Guðmundur segist vera duglegur að halda matarboð og vilji hafa það flott, forréttur, aðalréttur og eftirréttur. „Ég reyni síðan að velja góð vín með og hef ánægju af því að stúdera hvað passar best með hverjum rétti.“
Stjörnuklassa-fiskur á Ísafirði
Hjónin gera innkaupin fyrir heimilið saman. „Á Ísafirði er ágætisvöruúrval. Samkaup er með flott kjötborð og síðan kaupir maður pakkamatinn í Bónus. Einnig erum við með stjörnuklassa-fiskbúð þar sem alltaf er nýr og ferskur fiskur. Ég elda oft fisk og geri jöfnum höndum fiskrétti eða bara soðning og ekki er verra að hafa bita af selspiki með. Humar er líka í uppáhaldi hjá mér og ég elda hann stundum fyrir okkur hjónin.“ Um þessar mundir segist hann vera í átaki og fari í karlapúl þrisvar í viku. „Ég þarf að hugsa um vigtina og er í eilífu átaki að grenna mig. Meðfram því hef ég aukið grænmetisneyslu, sleppi brauði og unnum mjólkurvörum, það virkar. Svo er ég kominn aftur til fortíðar og borða hafragraut,“ segir Guðmundur Magnús eða Muggi og ætlar að gefa lesendum uppskrift að humarrétti.elal@simnet.is
Fyrir fjóra
humar
6 hvítlauksrif, smátt söxuð
1 chili-pipar, smátt saxaður
100 g smjör
1 msk. Teryaki-sósa
salt og pipar
rjómi
½ teningur kjúklingakraftur
koníak
„Í uppskriftina nota ég slatta af humri (fyrir fjóra), 6 geira af hvítlauk eða meira eftir smekk og einn meðalstóran ferskan chili-pipar. Set smjör í pott og bræði það, læt hvítlauk og chili-pipar út í. Þegar þetta er farið að krauma bæti ég Teryaki-sósu saman við. Þetta er látið kólna. Þegar blandan kólnar aðeins (ekki storkna) er humarinn settur saman við og allt hrært saman. Síðan færðu þér bara bjór og horfir á einhvern seinni hálfleik eða jafnvel allan leikinn. Ferð svo aftur í eldhúsið og hendir smjöri á pönnu og steikir humarinn í öllu gumsinu og kryddar með salti og pipar. Veiðir hann svo af pönnunni þegar þú heldur að hann sé ekki alveg steiktur í gegn. Þá er rjómi settur á pönnuna ásamt hálfum kjúklingateningi og smá koníaki (ef þú tímir því). Setur humarinn á disk og heitu sósuna yfir. Borið fram með salati eða brauði eftir stemningu. Það má líka grilla humarinn í staðinn fyrir að steikja og það er líka mjög gott.“