Indverski smábíllinn Nano var settur á markað á Indlandi árið 2009 og þótti sýnt að hann myndi snimmhendis slá í gegn. Bæði var bíllinn kynntur sem ódýrasti bíll í heimi og heimamarkaðurinn ennfremur sá sem hraðast fór vaxandi hvað bíleigendur varðaði.
Indverski smábíllinn Nano var settur á markað á Indlandi árið 2009 og þótti sýnt að hann myndi snimmhendis slá í gegn. Bæði var bíllinn kynntur sem ódýrasti bíll í heimi og heimamarkaðurinn ennfremur sá sem hraðast fór vaxandi hvað bíleigendur varðaði. Framleiðandinn, Tata Motors, töldu uppleggið skothelt: valkostur fyrir milljónir fjölskyldna af lægri þrepum millistéttarinnar sem hafa hug á að færa sig, af félagslegum jafnt sem praktískum ástæðum, af hjólinu og inn í bíl.
Of ódýr til að nokkur vilji hann
Salan hefur hinsvegar valdið vonbrigðum, nokkurn veginn frá upphafi. Þykir nú sýnt að meginsölupunkturinn – ódýrasti bíll í heimi – er það sem stendur sölunni fyrir þrífum. Í stað þess að fagna hinum hræódýra bíl, sem kostar nýr sem svarar um 350.000 krónum, hefur markhópurinn hunsað valkostinn og beinir frekar sjónum sínum að dýrari bílum eða notuðum bílum sem fást fyrir svipað verð. Á daginn hefur komið að bíllinn er því marki brenndur að vera bíll fátæka mannsins, nokkuð sem gengur ekki þegar reynt er að höfða til fólks með sterka stéttarvitund. Auk þess er grunngerðin án allra almennra þæginda og staðalbúnaður svo gott sem enginn. Einkum þykir óheppilegt að loftkæling er ekki til staðar, en óþarfi er að fjölyrða um hversu steikjandi hitinn verður á Indlandi. Þá þótti ekki traustvekjandi að eldur gaus fyrirvaralaust upp í fjölmörgum Nano-bílum.
Stendur til bóta
Forstjóri Tata Motors, Ratan nokkur Tata, lætur hins vegar engan bilbug á sér finna og hefur Nano verið bættur til muna, að sögn fyrirtækisins. Hann er nú fáanlegur í fleiri litum en áður og um leið hefur mælaborð og innviðir allir verðir gerðir veglegri, en verðinu haldið óbreyttu. Er það von fyrirtækisins að það verði til að koma sölu bílanna í gang. Þá hefur ábyrgðartími bílanna verið lengdur í 4 ár.jonagnar@mbl.is