Vilhjálmur Andri Kjartansson
vilhjalmur@mbl.is
Hin árlega franska kvikmyndahátíð verður haldin í tólfta sinn í ár og opnar hún í kvöld með kvikmyndinni The Artist í Háskólabíói. Stendur hún til 9. febrúar. Friðrik Rafnsson, président Alliance Française í Reykjavík, upplýsti blaðamann um blæbrigði hennar í ár en hátíðin er haldin af Alliance Française í Reykjavík, Græna ljósinu, Institut français og franska sendiráðsinu á Íslandi.
Grín, drama og hasar
Að sögn Friðriks kemur einnig kanadíska sendiráðið að hátíðinni í ár. „Það eru tvær myndir á hátíðinni í ár sem koma frá frönskumælandi svæðum utan Frakklands. Þær eru Öld myrkursins, L'Âge des ténèbres, og Sá sem kallar, Un homme qui crie, en þær koma frá Québec í Kanda sem eins og flestir vita er frönskumælandi svæði og Tsjad í Afríku en Frakkar hafa verið duglegir að styrkja kvikmyndaiðnaðinn í löndum sem áður voru nýlendur Frakka en eru nú samstarfsríki.“
Áhersla á franska kvenleikstjóra
Sú ásýnd sem margir kunna að hafa á franskri kvikmyndahátíð að einungis séu til sýningar listræn verk sem ekki eru fyrir aðra en hörðustu listunnendur bæjarins er röng að mati Friðriks. „Þetta er mikill misskilningur. Það eru margar vinsælar myndir í boði og það er eitthvað fyrir alla á þessari hátíð. Til dæmis er myndin The Artist sem hefur unnið til fjölda verðlauna t.d. þriggja Golden Globe-verðlauna og hefur verið útnefnd til tólf BAFTA-verðlauna sýnd á hátíðinni. Þá er vert að nefna að það koma nærri 10.000 gestir á hátíðina á hverju ári svo þarna er eitthvað fyrir alla og hátíðin höfðar vel til hins íslenska kvikmyndahúsagests,“ segir Friðrik.„Við ákváðum að þessu sinni að líta til kvenleikstjóra og af þeim tíu myndum sem sýndar eru á hátíðinni eru fjórar þeirra eftir konur. Það eru myndirnar Stríðsyfirlýsing, La guerre est déclarée, Barnsfaðirinn, Le Père de mes enfants, Þrauki einn fylgja hinir, Qu'un seul tienne et les autres suivront, og Saman er einum of, Ensemble c'est trop.“
Þá bendir Friðrik einnig á þá nýbreytni að hafa myndir utan Frakklands. „Kvikmyndaiðnaðurinn í Québéc hefur staðið í miklum blóma undanfarin ár og okkur fannst mikilvægt að hafa eina mynd sem fulltrúa frá Québéc. Síðan er náttúrlega myndin Un homme qui crie frá Tsjad en það hefur verið mikil gróska í afrískum kvikmyndaiðnaði og mættu íslenskir kvikmyndagerðamenn læra margt af þeim afrísku sem eru að gera góða hluti í dag.“