Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Oft er haft á orði að heilbrigðisgeirinn sé ónæmur fyrir kreppum. Fólk þarf sínar lækningar og ekki hægt að láta lyfjakaup og aðgerðir sitja á hakanum þótt fresta megi kaupum á nýju sófasetti eða flatskjá. En hvað með valkvæðu aðgerðirnar? Dregur úr fegrunaraðgerðum þegar þröngt er í búi?
Ágúst Birgisson lýtalæknir segir flest benda til að lítill sem enginn samdráttur hafi orðið á hans lækningasviði. Hann segir þó vandasamt að mæla þróunina eða tíðni lýtaaðgerða hér á landi þar sem kröfur sjúklinga um persónuvernd setji verulegar skorður við gagnaöflun.
Ágúst er bæði bæklunar- og lýtaskurðlæknir en það er ekki fyrr en árið 2007 að hann fer að helga sig lýtalækningum af fullum krafti. Fyrir vikið kveðst hann eiga erfitt með að meta hvar samdrátturinn kunni að hafa orðið. „Tölur frá Bandaríkjunum sýna hins vegar 5-10% fjölgun lýtaaðgerða milli ára og frá kollegum mínum hér á landi heyri ég almennt að verkefnastaðan sé mjög eðlileg og stöðugleiki í þessari grein lækninga,“ segir hann. „Íslendingar hafa almennt jákvætt viðhorf til lýtalækninga, eru opnari fyrir þessum möguleika og mörgum þykir sjálfsagt mál að láta laga augnlokin ef þau byrja að síga, laga magann ef hann er orðinn slappur eftir fjórða barn, eða lyfta brjóstunum ef þau eru farin að láta á sjá.“
Koma „heim“ í aðgerð
Það kann líka að hjálpa til að lýtaaðgerðir á Íslandi þykja mjög hóflega verðlagðar. „Við sjáum að þónokkuð er um að Íslendingar búsettir erlendis komi til landsins i lýtaaðgerðir. Kostnaðurinn við aðgerð hér á landi getur enda verið helmingur og jafnvel þriðjungur af því sem sama aðgerð myndi kosta á hinum Norðurlöndunum.“Hagstætt verðið laðar þó ekki að erlenda viðskiptavini enn sem komið er. „Eins og gefur að skilja þá þekkja útlendingar ekki eins vel og Íslendingar hver gæði þjónustunnar eru – vita ekki að hverju þeir ganga. Eins þykir mörgum betra að gangast undir svona aðgerð á heimaslóðum bæði vegna eftirlits og eftirfylgni og eins ef koma upp flækjur sem kalla á frekari meðferð.“
Algengustu lýtaaðgerðirnar sem Ágúst framkvæmir eru lagfæringar á augnlokum, brjóstastækkanir og fitusog. Hann áætlar að um 80% viðskiptavina séu konur. „Körlum fjölgar stöðugt á stofunni, og einkum að þeir velja að fara í fitusog og augnlokaaðgerðir. Einnig eru karlar í auknum mæli farnir að nýta sér hrukkumeðferðir eins og bótox-sprautun. Ég greini það á mínum viðskiptavinum að rétt eins og með konurnar þyki körlum ósköp eðlilegt að láta laga sig þegar aldurinn fer að segja til sín.“
Fegrunaraðgerðir eru mjög misdýrar. Viðmiðunarverð á Bótox-meðferð hjá Ágústi er um 55.000 kr, fitusog kostar 170.000 kr með svæfingu, brjóstastækkun nærri 400.000 kr og andlitslyfting yfir hálfa milljón. Allhá fjárhæð á flestum heimilum, en samt ekki meiri en svo að Ágúst segir flesta staðgreiða fyrir aðgerðina. Raðgreiðslumöguleikar standi til boða en séu lítið notaðir.
Erfitt en gefandi starf
Þó eftirspurnin sé góð nefnir Ágúst að allur rekstrar- og efniskostnaður hafi aukist, oft tvöfaldast og þrefaldast frá því sem áður var. „Stofnkostnaðurinn er gríðarlegur og hverri aðgerð fylgir mikill efniskostnaður, en á sama tíma standa efnisstyrkir sjúkratryggingakerfisins í stað. Útkoman er vitaskuld sú að sjúklingurinn ber á endanum hærri kostnað. Fyrir lækninn er þetta mikil vinna og erfið.“En þar með er ekki sagt að starfið sé ekki ánægjulegt. Ágúst segir að gamall draumur hafi ræst þegar hann gat byrjað að sinna lýtaaðgerðum af meira kappi. Hann hafi raunar átt sér þennan draum allt síðan hann var tólf ára snáði. „Það er ekki síst gefandi við þetta starf hvað sjúklingarnir eru þakklátir og ánægðir með þjónustuna. Ég hef góðan samanburð úr bæklunargeiranum og má segja að fólk sé mun hamingjusamara að fá ný brjóst en nýtt hné,“ bætir hann við og hlær.
LÆKNAR MEGA EKKI AUGLÝSA, OG ALLIR GRÆÐA?
Keppa ekki um athygli og spara
Læknar á Íslandi mega ekki auglýsa þjónustu sína. Löggjöfin leggur þær hömlur á stéttina að eingöngu má birta fáar, litlar og látlausar auglýsingar og þá eingöngu þegar læknir opnar stofu, flytur eða hættir starfsemi. Þessar skorður á auglýsingar hljóta að gera læknum erfiðara fyrir að hefja rekstur eða kynna sjúklingum nýja þjónustu, en hins vegar segir Ágúst að þetta fyrirkomulag virðist reynast vel og reynslan frá öðrum löndum gefi til kynna að takmarkaðar auglýsingar komi sér vel fyrir bæði lækna og skjólstæðinga þeirra.„Þessar reglur hafa vafalitið verið settar sem siðareglur á sínum tíma, en um leið þýðir þetta fyrirkomulag að læknar þurfa ekki að keppa hver við annan í auglýsingum. Gott orðspor og gæði þjónustunnar berast nokkuð greiðlega manna á milli í litlu samfélagi eins og Íslandi, og auðvelt er fyrir fólk að vita hvert gæti verið best að leita. Læknar í öðrum löndum þurfa iðulega að eyða fúlgum fjár í auglýsingar vegna þess að allir hinir læknarnir gera það líka. Þessi útgjöld eru svo alltaf á endanum borin af viðskiptavininum.“
EITTHVAÐ UM AFBÓKAÐAR BRJÓSTASTÆKKANIRL