Helgi Eiríkur Magnússon fæddist í Másseli í Jökulsárhlíð 15. ágúst 1928. Hann lést í faðmi fjölskyldu sinnar í Árskógum 1, Egilsstöðum, 10. janúar 2012.
Eiríkur var jarðsunginn frá Egilsstaðakirkju 21. janúar 2012.
„Seinna meir sé ég þig, seinna meir trúirðu mér,“ kemur úr hátölurunum í gulu Toyotunni hans Magga. Vorið er 1981 ég er 10 ára og ég sit í bílnum á leiðinni í Hólmatungu í Jökulsárhlíðinni í fyrsta skipti. Hólmatunga var á þeim tíma eins langt frá Reykjavík og hugsast gat – tvær stuttar og ein löng (u.þ.b.) – og möl alveg í Hvalfjörðinn. Þetta var þriðja sveitin mín á 5 árum svo greinilegt að fjörmikill var drengurinn.
Í hlaðinu taka þau á móti mér sómahjónin Gunnþórunn Jónsdóttir og Eiríkur Magnússon. Í tvö sumur og eina páska dvaldi ég í Hlíðinni. Þetta var heimili mitt og vin. Minningin er falleg, ánægjuleg og jákvæð. Að ríða á Sleipni þeim mikla fáki (líklega 15 vetra þegar þetta var), veiða sel á sandinum, sækja rekavið, elta mink og gæsir í nóttinni, endalausar bækur að lesa, ganga yfir Hellisheiði með kindur, kyssa stelpu undir hlöðugólfi, reyna að reykja bakvið skúr og hlusta á rödd manns sem þekkti landið og náttúruna betur en flestir á þessu svæði.
Þessar minningar koma til mín núna þegar Eiríkur Magnússon kveður Hlíðina. Hann tók mér vel þrátt fyrir æðibunuganginn og endalausar spurningar. Hann hafði lúmskt gaman af þessum síspyrjandi strák sem var allt of stór fyrir sinn aldur. Hann kenndi mér á sveitina. Einu sinni hrósaði hann mér alveg sérstaklega þar sem við vorum í girðingarvinnu: „Grímur þú ert ekki dæmigert borgarbarn – þú gætir barasta hafa fæðst í sveit.“ Það þykir mér ekki vond einkunn.
Ég hef heimsótt Hólmatungu nokkrum sinnum frá því að dvöl minni þar lauk og Gunnþórunn hefur verið dugleg að rækta sambandið. Það var alveg sérstaklega gaman að líta við með fjölskylduna sumarið 2005 og upplifa þegar teknar voru upp nokkrar vel valdar kökur úr frysti eins og gert var fyrir 30 árum þegar sérstaka gesti bar að garði.
Gunnþórunni, Magnúsi, Viggó, Jóni Brynjari, Jóhönnu og öðrum aðstandendum votta ég samúð mína. Ég á bara góðar minningar um Eirík Magnússon og Tunguna sem hann byggði fyrir um 60 árum.
Grímur Atlason.
Ég man fyrst eftir Eiríki móðurbróður okkar sem barn fyrir 60 árum, þegar hann kom til Eyja á vertíð, glæsilegum ungum manni, en hann bjó hjá okkur marga vetur eftir það. Ég heyri enn fyrir mér skrjáfið í niðurbrettum klofstígvélunum, er hann kom heim í Lambhaga úr vinnunni. Það voru miklir fagnaðarfundir og ánægjustundir hjá móður okkar, þegar systkini hennar og þeirra kunningjar komu á vertíð og heimsóttu okkur. Mikið var spjallað, sagðar sögur og hlegið langt fram á nótt.
Ungur fór Eiríkur til náms í Laugaskóla og eignaðist þar marga vini og ljúfar minningar. Hann vann við síldveiðar um tíma, einnig var hann fláningsmaður í sláturhúsinu á Fossvöllum í nær hálfa öld. Eiríkur var mikill bóndi og sérlega laginn við að koma fé vel fram þó að erfitt væri með fóðuröflun. Hann var laginn hestamaður og með afbrigðum fjárglöggur, eins og reyndar bræður hans líka. Það virtist alltaf vera jafnmikið ævintýri fyrir þá bræður að fara í göngur á æskuslóðir sínar í Ásdal og Tungur, en þangað ráku þeir fé sitt lengi framan af, eftir að flutt var út á eyjar.
Eiríkur var skemmtilega fróður og vel lesinn, góður söngmaður og kunni vel að gleðjast með glöðum. Ég var snúningadrengur í Hólmatungu er hann flutti ástina sína, hana Gunnu, í garð. Gunna kom með ferskan blæ norðan úr Möðrudal, en hafði verið í vist hjá heldra fólki suður í Reykjavík. Ung, kát og skemmtileg stúlka, sem alla tíð hefur verið mér sérlega góð. Það var mikil gæfa og ævintýri að fá að kynnast því afbragðs fólki, sem í Möðrudal bjó. Eiríkur og Gunna hafa rekið myndarbú í Hólmatungu í meira en hálfa öld af miklum dugnaði og alið upp fimm myndar- og dugnaðarbörn, sem hafa komið sér vel áfram í lífinu.
Með Eiríki Magnússyni er genginn merkur bóndi, sem sinnti störfum sínum af natni og útsjónarsemi. Við systkinin úr Eyjum nutum þess öll að fá að dvelja í Hólmatungu um skeið, þegar við vorum börn og eigum við góðar minningar þaðan.
Að lokum viljum við votta fjölskyldu Eiríks okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning góðs frænda,
Magnús Helgi Sigurðsson.
Frá því ég man eftir mér hefur sveitin alltaf verið fasti punkturinn í tilverunni og þar hef ég átt margar mínar bestu stundir. Sveitin er ekki bara friðsæll og fallegur staður, þar hef ég líka numið lífsins mikilvægustu lexíur. Að loknu verki tylltum við afi okkur á garðabandið, neftóbaksdósin var tekin upp og svo var hafist handa við að leysa heimsmálin. Þau gátu varðað búskapinn, náttúruna, veðurfar, pólitík, vonda menn úti í heimi eða kvöldmatinn. Umræðuefni skorti okkur aldrei. Allt undir sólinni gat borið á góma á garðabandinu. Reglulega hnerraði ég af neftóbakinu og alltaf hló afi og spurði hvort það mætti ekki bjóða mér meira.
Það var svo gaman að hlusta á afa segja frá. Hann lifði tímana tvenna og gaf sér alltaf tíma til að segja sögur og svara ótal spurningum okkar barnabarnanna. En áhugi hans á okkar sögum var engu minni. Af áhuga og einbeitingu hlustaði hann á ferðasögur frá framandi löndum, pólitískar spekúleringar, mögulegar lausnir á vandamálum heimsins, bókagagnrýni og annað sem lá á hjartanu hverju sinni.
Svo gengum við heim og ef heppnin var með okkur var stjörnubjart og stillt. Þá gáfum við okkur tíma til að stúdera svolítið það sem fyrir augu bar. Fyrr í vikunni stóð ég og mændi upp í stjörnubjartan himininn, mitt í Sahara-eyðimörkinni. Fyrir augu bar nákvæmlega það sem við afi áttum til að staldra við og stara á á leið okkar heim í kvöldmat. Á þessari stundu rann það upp fyrir mér að afi minn mun fylgja mér um ókomna tíð, því sjálfur stjörnuhimininn er nú fyrir mér sem minnismerki um hann.
Vorin í sveitinni eru einstök og upp í hugann koma bernskuminningar þar sem ég skoppaði um túnin við hlið afa í miðnætursólinni. Tilgangurinn var auðvitað að hjálpa til, þrátt fyrir að ég næði honum nú varla í hné og komið væri fram yfir háttatíma. Við afi kunnum nefnilega bæði best við að vaka fram eftir. Það má deila um hversu mikil hjálp var í að hafa þetta forvitna stelpuskott dinglandi á eftir sér, en alltaf voru skilaboðin þau sömu; hjálpin var kærkomin og fyrir hana var þakkað.
Nú er það ég sem þakka honum afa mínum fyrir að hafa fengið að trítla við hlið hans í gegnum lífið. Fyrir allt sem hann kenndi mér, fyrir manngæskuna, þolinmæðina og hlýjuna sem honum var svo töm. Fyrir að vera stoltur af mér og elska mig skilyrðislaust.
Þórunn Ólafsdóttir.