Sigríður Guðjónsdóttir fæddist á Fornusöndum undir Eyjafjöllum 17. september 1923. Hún lést á Landakotsspítala 11. janúar 2012.
Sigríður var jarðsungin frá Grafarvogskirkju 20. janúar 2012.
Í dag kveðjum við vinkonu okkar sem var spilafélagi okkar í mörg ár. Hún spilaði síðast við okkur í október síðastliðnum og þá fundum við að hún var þrotin að kröftum en áttum ekki von á að svo stutt yrði til endaloka. Sigríður var góð spilakona, glögg og minnug og elskuleg í viðmóti.
Sigríður átti stóra fjölskyldu sem var henni fjarskalega kær. Hún ferðaðist mikið með börnum sínum og barnabörnum og naut þess að segja okkur frá öllu því skemmtilega sem á daga hennar dreif.
Sigríður var mjög listfeng og hafði unun af að skapa fallega muni, hvort sem var úr gleri, leir eða ull. Við fengum frá henni margar fallegar gjafir á jólum.
Er ég heimsótti hana á Landakot rúmri viku fyrir andlát hennar, sagðist hún vera að mála fugl á striga eða tau og fannst það ótrúlega gaman. Það er gott að geta kvatt þetta líf með skemmtilegt verkefni í höndum.
Blessuð sé minning hennar.
Ólöf, Hlíf og Kristín.
Guðdómlegur geisli blíður
greiðir skuggamyrkan geim;
á undra vængjum andinn líður
inn í bjartan friðarheim.
(Hugrún)
Við sendum ástvinum þínum innilegar samúaðarkveðjur.
Þínar systurdætur,
Guðríður (Gurrý Anna) og Eva.