Foreldrar barna í Hamraskóla í Grafarvogi eru mótfallnir því að unglingadeild skólans verði lögð niður og nemendur 8.-10. bekkjar sæki Foldaskóla sem á að verða heildstæður safnskóli á unglingastigi frá hausti 2012. Þeir eru ekki á móti málinu bara vegna þess að þeir vilja ekki breytingar á sínum högum og barna sinna heldur er augljóst eftir að hafa skoðað vandlega margar hliðar málsins að þær jákvæðu eru átakanlega litlar miðað við þær neikvæðu. Þar að auki hefur samráð vegna málsins verið í orði en ekki á borði, flutningur unglingadeildarinnar úr hverfinu mun rýra aðdráttarafl þess og hafa neikvæð áhrif út fyrir það, m.a. vegna aukinnar umferðar sem óhjákvæmilega verður á milli Hamra- og Bryggjuhverfis annars vegar og Foldahverfis hins vegar en börn í Bryggjuhverfi sækja Hamraskóla.
Enginn skóli hefur komið betur út en Hamraskóli
Foreldrar hafa frá því að hugmyndir um sameiningu komu fram ítrekað lýst óánægju sinni með þær þar sem hvorki hefur verið sýnt fram á fjárhagslegan né faglegan ávinning af þeim. Áherslan hefur verið á að fleiri námstækifæri og félagsleg tækifæri yrðu til staðar í stærra unglingasamfélagi en er að finna í Hamra- og Húsaskóla nú.Á þessari fullyrðingu eru fleiri hliðar. Viðbúið er að félagsmiðstöðinni í Hamraskóla verði lokað þegar unglingadeildin verður farin úr skólanum. Ekki mun félagslegum tækifærum nemenda í 5.-7. bekk fjölga við það og auðvitað verður meira mál fyrir unglinga í Hamrahverfi að sækja félagsmiðstöð út fyrir hverfið sitt. Þess má geta að strætó hefur ekki ekið um Hamrahverfi í nokkur ár.
Fjöldi námstækifæra er eitt og gæði annað. Faglegt starf í Hamraskóla er mjög gott og hefur enginn skóli í Reykjavík komið betur út úr mati á heildstæðu skólastarfi en hann. Nemendur Hamraskóla væru því að fara út í óvissuna við flutning í annan skóla. Enn hefur ekki verið upplýst hver fagleg markmið með sameiningunni eru, hvernig á að ná þeim, hvernig árangur verður mældur eða hvernig eigi að bregðast við ef þau nást ekki. Einhverfudeild er starfrækt við Hamraskóla og hafa foreldrar barna þar eðlilega áhyggjur af því hvað verður um þá starfsemi.
Samráð í skötulíki
Foreldrar grunnskólabarna í Hamrahverfi og forsvarsmenn skóla- og frístundamála hjá Reykjavíkurborg virðast upplifa undirbúnings- og samráðsferli vegna sameiningar unglingadeildanna á afar ólíkan hátt. Forsvarsmenn í borginni telja gott samráð viðhaft og geta jafnvel flaggað fundargerðum stýrihóps og frá opnum fundum um málið. Eftir að fjölmiðlar fengu veður af óánægju foreldra og fjölluðu um málið fengu foreldrar barna í Húsa-, Folda- og Hamraskóla bréf frá Ragnari Þorsteinssyni, formanni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar þar sem hann gerir m.a. grein fyrir verkefni og leiðarljósi stýrihóps og fer yfir rök fyrir safnskóla. Í niðurlagi bréfsins segir orðrétt: „Þátttaka foreldra í stefnumótun fyrir skólastarfið er því afar mikilvæg svo og jákvæð viðhorf til þeirra breytinga sem fram undan eru.“Þarna afhjúpast nákvæmlega það sem foreldrar hafa upplifað í „samráðsferlinu“. Við megum vera með svo lengi sem við erum jákvæð í garð hugmyndanna sem á borð eru bornar og þess ferlis sem farið er af stað. Það er erfitt að vera jákvæður gagnvart einhverju sem maður telur rýra lífsgæði barna sinna og sín eigin.
Lokaorð bréfs Ragnars eru þessi: „Ég treysti áfram á þátttöku ykkar og liðsinni og hvet ykkur til að koma ábendingum til skólastjórnenda og fulltrúa foreldra í stýrihópi þannig að finna megi bestu lausnir á öllum vanda sem þið sjáið fyrir eða upp kann að koma í breytingaferlinu.“ Hingað til hefur ekkert verið gert með ábendingar foreldra, sama á hvaða vettvangi þær hafa verið settar fram. Það er erfitt að sannfæra okkur um að nú verði skyndilega byrjað að taka tillit til okkar sjónarmiða, enda er krafa okkar sú að falla frá fyrirhugaðri sameiningu og leyfa Hamraskóla að halda sínu góða starfi áfram í friði.
Aðdráttarafl hverfisins í hættu
Það er ekki aðeins hagsmunamál fyrir foreldra barna í skólanum heldur alla íbúa hverfisins að halda Hamraskóla óbreyttum. Ef hann er ekki heppileg eining nú þá verður hann varla hagkvæmur þegar búið er að fækka um þrjá árganga í honum. Aðdráttarafl hverfisins fyrir barnafólk mun augljóslega minnka þegar sækja þarf skóla og félagsstarf út fyrir hverfið og afleiðingin gæti orðið sú að fasteignaverð lækkaði og erfitt yrði að selja. Við sitjum ekki við sama borð og íbúar Húsahverfis þar sem strætó gengur, þar sem er sundlaug, íþróttahús, lítill verslanakjarni og meira að segja skíðalyfta!Boðað hefur verið til opins fundar um framtíð skólans og hverfisins á sal Hamraskóla í kvöld kl. 19.30. Þangað hefur borgarfulltrúum og embættismönnum sem eru í forsvari skóla- og frístundamála verið boðið til að freista þess að fá svör við ýmsum spurningum sem enn er ósvarað. Íbúar hverfisins eru hvattir til að fjölmenna og taka þátt í að standa vörð um hverfið sitt.
Höfundur er viðskiptastjóri, íbúi, faðir og fasteignaeigandi í Hamrahverfi.