Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
„Þetta er afar stöðugur bransi. Ef fólk veikist eða slasast og þarf að fara í hjólastól, þá er það ekki látið bíða. Að vísu er ekki hægt að segja að þörfin sé alltaf sú sama. Við sjáum t.d. þá ánægjulegu þróun að dregið hefur mjög úr tíðni alvarlegra vandamála eins og klofins hryggs eða lömunarveiki, sem kölluðu á mikla stoðtækjaþjónustu. Á móti kemur hins vegar að þjóðin er að eldast, ýmsir lifsstílssjúkdómar kunna að vera að aukast og ríkari áhersla á að halda sem bestri hreyfigetu og sjálfstæði sem lengst.“
Þannig lýsir Elías Gunnarsson stöðunni og horfunum á stoðtækjamarkaðinum. Elías er framkvæmdastjóri Stoðar hf. stoðtækjasmíði. Fyrirtækið, sem fagnar 30 ára afmæli í ár, rekur verkstæði og verslun i Trönuhrauni og hefur á að skipa um 30 starfsmönnum. „Við skilgreinum okkur sem þjónustufyrirtæki frekar en framleiðanda og seljanda. Starfið felst í því að þjónusta og bæta lífsgæði fatlaðs, slasaðs og bæklaðs fólks og oftast er um sérgerðar lausnir að ræða.“
Sköpuðu stoðtækjamiðstöð
Hjá Stoð starfa m.a. sex stoðtækjafræðingar og fjórir skósmiðir sem mæla, smíða og hanna stoð- og stuðningstæki eins og spelkur, skó og gervilimi. Fyrir um áratug hóf fyrirtækið líka að selja hjálpartæki á borð við hjólastóla og göngugrindur. „Opnun hjálpartækjasölunnar er helsti stóri vendipunkturinn i 30 ára sögu fyrirtækisins. Við stigum þetta skref til að gera Stoð að n.k. miðstöð fyrir allar stoð- og hjálpartækjaþarfir. Hér er hægt að fá allar lausnir,“ segir Elías. Auk rekstrarins á Íslandi á Stoð lítið danskt dótturfyrirtæki. Þar starfa fimm manns og selja einkum svokallaða mjúka stoðvöru, s.s. þrýstingsumbúðir, stuðningssokka og gervibrjóst.Reksturinn hefur vaxið rólega að sögn Elíasar. Starfsemin segir hann að bjóði ekki upp á öran vöxt eða útrásardrauma, því gæði vörunnar byggist á náinni þjónustu við viðskiptavininn. „Reksturinn hvílir allur í höndum sérfræðinga okkar, og því er ekki hægt að fara svo glatt með starfsemi Stoðar út í heim nema starfsmennirnir fari með. Ekki er heldur um fjöldaframleiðslu að ræða. Þjónustan fer svo fram í gegnum þverfagleg teymi þar sem margt verkar saman: sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, og stoðtækjagerðin.“
Sígandi lukka er best, segir máltækið, og virðist Stoð vera lýsandi dæmi. Elías segir þó að þegar þrengi að í efnahag þjóðarinnar verði vart við það í starfsemi Stoðar eins og annars staðar í samfélaginu. „Greinilegt er að heilbrigðiskerfið þarf að spara, og gagnvart okkur birtist það í að samþykktir fyrir stoðtækjakaupum berast hægar en áður, og aðhaldið er greinilegt. Þetta er þó útgjaldaliður þar sem ekki er að því hlaupið að spara: ef leitað væri i ódýrari vörur og minni gæði myndi sparnaðurinn fljótt verða að engu með auknu viðhaldi og styttri endingartíma. Sú vara sem við seljum er vara sem heilbrigðiskerfið hefur langa reynslu af og veit að endist vel.“
Stöðug þróunarvinna á sér stað innan fyrirtækisins og þurfa Elías og starfsfólk hans að reyna að sjá fyrir þarfir markaðarins fram í tímann. Eins og Elías minntist á hér að framan hafa framfarir í lækningum því sem næst útrýmt mörgum sjúkdómum og fötlunum sem áður kölluðu á mikla stoðtækjanotkun. Í framtíðinni kann hins vegar að verða vaxandi eftirspurn eftir lausnum til að mæta kvillum sem fylgja bæði auknu langlífi og lífsstílssjúkdómum. „Fyrir stuttu fjölluðu fréttir um hvað þjóðin væri að þyngjast. Með vaxandi þyngd má gera ráð fyrir að tíðni sykursýki og æðasjúkdóma aukist og það mun svo kalla fram sárameðferðir og kvilla í ganglimum og jafnvel aflimanir, sem kalla á ákveðnar stoðtækjalausnir.“
Stoðtækin segir Elías að geti svo bæði minnkað kostnað heilbrigðiskerfisins og bætt lífsgæði með því að gera sjúkum, fötluðum og öldruðum kleift að lifa sjálfstæðara lífi og búa lengur á eigin vegum frekar en inni á stofnunum. „Ýmsar tölur eru nefndar um kostnaðinn við hvern dag sem sjúklingur er hafður á spítala, eða í sérstakri umönnun. Margt má gera með réttu stoðtækjunum til að hjálpa stórum hópi fólks að vera lengur heima.“
Meðal spennandi nýjunga hjá Stoð nefnir Elías fótspelkur úr koltrefjum sem hannaðar eru til að gagnast m.a. þeim sem eiga í gönguvandræðum eftir slag, og eins hefur fyrirtækið unnið mikla þróunarvinnu við gerð sérsniðinna sæta fyrir hjólastóla. „Ef fólk er bogið eða bæklað þá er hreinlega skipt um bak og setu í stólnum, og hann mótaður þannig að hann styðji við eins og best verður á kosið.“
FYRIRLESTRARÖÐ UM STOÐTÆKI
Opna dyrnar á afmælisári
Í tilefni af 30 ára afmælinu efnir Stoð til kynningar- og fyrirlestraraðar sem spannar allt árið. „Stoð er ekki svo þekkt fyrirtæki utan heilbrigðissviðsins. Okkur langar að nota þetta tækifæri til að kynna betur út á við þá starfsemi sem hér fer fram. Hér er aðstaðan með besta móti og hér starfar frábært starfsfólk, og að mínu mati erum við að gera mjög góða hluti og liðsinna fólki við að komast aftur á lappirnar, jafna sig á áföllum eða vinna bug á kvillum.“Haldnir verða 11 fyrirlestrar á árinu, og eru flestir haldnir síðasta fimmtudag hvers mánaðar. Fyrsti fyrirlesturinn er í dag, fimmtudag, en frá kl. 14-16 ætla stoðtækjafræðingarnir Sveinn Finnbogason og Þórir Jónsson að fjalla um lausnir í bakbeltum og bolspelkum. „Við bjóðum fólki að hlusta á erindi, en ekki síður að skoða vörurnar sem við erum að bjóða og kynnast í þaula þeim lausnum sem búið er að þróa.“