Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Danir urðu í gærkvöld fjórða og síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í handknattleik í Serbíu þegar þeir unnu Svía örugglega, 31:24, í Belgrad. Þar með mæta þeir Spánverjum í undanúrslitunum annað kvöld og Serbar mæta nágrönnum sínum, Króötum.
Þetta er magnað afrek hjá Dönum sem voru í sömu stöðu og Íslendingar þegar milliriðlarnir hófust. Þeir hófu þar keppni án stiga, eins og Ísland og Frakkland, en unnu alla þrjá leiki sína og náðu öðru sætinu.
Þar fengu Danir reyndar hjálp frá Pólverjum sem lögðu Þjóðverja, 33:32, í æsispennandi leik. Þýska liðið var þar með úr leik, eftir að hafa staðið best að vígi fyrir lokaumferðina. Pólland og Makedónía áttu möguleika ef Danir næðu ekki að sigra Svía en aldrei lék vafi á að danska liðið myndi vinna viðureignina í gær.
Kemst Ísland í ÓL-dauðafærið?
Óhætt er að segja að úrslitin á lokasprettinum hafi heldur betur þróast Íslandi í hag, með tilliti til forkeppni Ólympíuleikanna í apríl. Danmörk, Spánn og Króatía eru öll í undanúrslitum og ef eitt þessara liða verður Evrópumeistari færist Ísland til í riðli í forkeppninni og fær sannkallað dauðafæri til að komast á Ólympíuleikana í London. Liðið yrði í riðli með Króötum eða Svíum, og svo Japan og Síle. Tvö lið af fjórum komast á ÓL í London og ekki þarf að fjölyrða um möguleika Íslands ef þessi staða kemur upp.Þá eru það bara Serbar sem mega ekki verða Evrópumeistarar – út frá íslenskum hagsmunum. Standi þeir uppi sem sigurvegarar á heimavelli fara þeir á Ólympíuleikana og Danmörk, Spánn og Króatía verða öll í forkeppninni. Þá yrði Ísland í riðli með Spáni og Brasilíu ásamt Slóveníu eða Makedóníu.
Óvænt í ólympíubaráttunni
Makedónía og Slóvenía hrepptu í gær þriðja sætið, hvort í sínum milliriðli. Makedóníumenn urðu fyrstir til að sigra Serba, lögðu þá 22:19 í Belgrad, og Slóvenar urðu fyrir ofan Ungverja, þrátt fyrir tap gegn Spáni, því Ungverjar gerðu jafntefli við Króata.Það kemur því í hlut Makedóníu og Slóveníu að leika um 5. sætið á mótinu á morgun. Sá leikur er hreinn úrslitaleikur um sæti í forkeppni Ólympíuleikanna. Verði Serbar Evrópumeistarar komast bæði liðin í forkeppnina.
Niðurstaða gærdagsins er mikið áfall fyrir Þjóðverja sem hafna í 7.-8. sæti og komast ekki í forkeppni ÓL. Pólverjar enduðu í 9. sæti en þeir gætu farið inn um bakdyrnar og í forkeppnina vegna árangurs síns á HM í fyrra, ef Spánn, Danmörk eða Króatía verður Evrópumeistari.