Sökk Hallgrímur við bryggju á Siglufirði.
Sökk Hallgrímur við bryggju á Siglufirði. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Þrír skipverjar togarans Hallgríms SI-77 eru taldir af eftir að skipið sökk um 150 sjómílur NV af Álasundi í Noregi í gær.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Þrír skipverjar togarans Hallgríms SI-77 eru taldir af eftir að skipið sökk um 150 sjómílur NV af Álasundi í Noregi í gær. Leit að mönnunum var hætt klukkan níu í gærkvöldi að íslenskum tíma en aftakaveður var á svæðinu, ölduhæð um 15 metrar og allt að 70 hnúta vindur. Fjórða skipverjanum, 34 ára gömlum Íslendingi, var bjargað úr sjónum með þyrlu frá norska lofthernum.

Að sögn Jans Lillebø, björgunarstjóra hjá björgunarmiðstöð Suður-Noregs, voru mennirnir sem fórust Íslendingar í kringum sextugt.

Skipið lagði af stað frá Siglufirði síðdegis á laugardag en það hafði verið selt í brotajárn til Noregs. Gæslunni barst sjálfvirkt neyðarkall frá skipinu kl. 13:14 í gær. Tvær norskar björgunarþyrlur voru sendar af stað og komu þær á vettvang um kl. 16:30.

Hálftíma síðar fannst einn skipverjanna en hann hafði komist í flotgalla. Flogið var með hann á sjúkrahús í Álasundi og kom hann þangað um kl. 20:00. Hann er talinn við góða heilsu miðað við aðstæður. Sökum þess að skipið hvarf snögglega úr ferilvöktunarkerfum var talið að það hefði sokkið hratt. Því má ætla að skipverjinn sem bjargaðist hafi verið í sjónum í rúmar þrjár klukkustundir. Björgunarmenn fundu einnig tóman björgunarbát og brak úr skipinu og þótti þá ljóst að það hefði sokkið. Það tók þyrlurnar um klukkustund að komast á slysstað og þar gátu þær leitað í 30-45 mínútur áður en þær urðu að snúa við. Einnig tóku Orion-leitarflugvél og nálægt skip þátt í leitinni.