Alþingi Jóhanna Sigurðardóttir og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.
Alþingi Jóhanna Sigurðardóttir og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Hjörtur J. Guðmundsson hjorturjg@mbl.is „Það hefur ekki nokkur einasti þingmaður sem ég hef hitt léð máls á því.

Fréttaskýring

Hjörtur J. Guðmundsson

hjorturjg@mbl.is

„Það hefur ekki nokkur einasti þingmaður sem ég hef hitt léð máls á því. Það er auðvitað mjög undarlegt að forsætisráðherra skuli skella þessu fram eins og hún hafi skipað forseta þingsins og geti þar með dregið þá skipun til baka eða eitthvað í þá veruna,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði við fjölmiðla að loknum ríkisstjórnarfundi á þriðjudaginn að til greina kæmi að nýr forseti Alþingis tæki við af Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur. Þá sagði hún ennfremur: „Staðan er þannig að í okkar flokki þá gengust allir ráðherrar og líka forseti undir það að það gætu orðið breytingar á kjörtímabilinu. En ég lagði Ástu til sem forseta þingsins á sínum tíma og hef ekki enn gert neinar breytingar á því.“

Átta hafa skrifað undir

„Þetta gengur auðvitað ekki þannig fyrir sig enda er forseti Alþingis auðvitað bara kjörinn af þingmönnum. Forsætisráðherra hefur ekkert meira um það mál að segja nema bara sem eitt atkvæði í þingsalnum,“ segir Gunnar Bragi.

Átta þingmenn hafa sett nafn sitt á undirskriftalista þar sem farið er fram á að Ásta Ragnheiður láti af embætti forseta Alþingis að sögn Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Hreyfingarinnar, en hún hóf undirskriftasöfnunina í kjölfar þess að meirihluti Alþingis hafnaði því síðastliðinn föstudag að taka af dagskrá þingsins þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna um að fallið yrði frá landsdómsákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, en Ásta Ragnheiður hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa samþykkt að málið skyldi sett á dagskrána.

„Ég hef ekki nokkra trú á því að það sé meirihluti fyrir því í þinginu að skipta um forseta og get ekki ímyndað mér að það fáist nema örfá atkvæði til þess að styðja þá tillögu,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Hún segir ennfremur óþolandi fyrir forseta Alþingis að búa við óvissu um það hvort ætlunin sé að setja hana af eða ekki og því sé mikilvægt að fá botn í það mál sem fyrst hvort slík tillaga komi fram og hverjir styðji hana.

Hvorki náðist í Björn Val Gíslason, þingflokksformann Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, né Magnús Orra Schram, starfandi þingflokksformann Samfylkingarinnar, við vinnslu fréttarinnar.

Landsdómsmálið
» Samþykkt var á Alþingi í lok september 2010 að ákæra Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, fyrir landsdómi.
» Sjálfstæðismenn lögðu fram þingsályktunartillögu á Alþingi fyrir jól um að ákæran yrði dregin til baka.
» Hafnað var með 31 atkvæði gegn 29 að tillagan yrði tekin af dagskrá Alþingis.