Stjórnar Guðmundur Þ. Guðmundsson segir sínum mönnum til á EM.
Stjórnar Guðmundur Þ. Guðmundsson segir sínum mönnum til á EM. — Reuters
Ívar Benediktsson í Novi Sad iben@mbl.is „Við fórum inn í þessa keppni með nokkra óvissu um hvernig okkur myndi reiða af vegna þess að hvorki Ólafur Stefánsson né Snorri Steinn Guðjónsson voru með.

Ívar Benediktsson í Novi Sad

iben@mbl.is

„Við fórum inn í þessa keppni með nokkra óvissu um hvernig okkur myndi reiða af vegna þess að hvorki Ólafur Stefánsson né Snorri Steinn Guðjónsson voru með. Þá var Alexander Petersson meiddur og einnig Ingimundur Ingimundarson,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið í gær eftir að keppni var lokið hjá íslenska liðinu og ljóst að það hafnaði í níunda til tíunda sæti.

„Í ljósi þessarar óvissu átti ég von á að þetta mót reyndist okkur mjög erfitt. Þegar á hólminn var komið spilaðist sóknarleikurinn alveg ótrúlega vel. Rætt hefur verið um það hér á meðal manna að sóknarleikurinn hafi átt erfitt uppdráttar í keppninni á kostnað varnarleiksins. Við höfum upplifað keppnina á annan hátt þar sem sóknarleikur okkar hefur verið alveg glimrandi góður gegn mörgum af bestu liðum heims. Framan af áttum við í erfiðleikum með varnarleikinn og helstu ástæður þess eru m.a. að Alexander var ekki heill heilsu. Hann hefur verið sterkasti varnarmaður okkar árum saman. Ingimundur var einnig meiddur og þess vegna hikstaði vörnin meðal annars.

Besta mót Vignis frá upphafi

Þegar á keppnina leið fannst mér liðið vinna sig hægt og bítandi inn í mótið hvað varnarleikinn varðar. Vignir Svavarsson spilaði sennilega sitt besta mót frá upphafi með landsliðinu og leysir Ingimund mjög vel af auk þess sem hann skoraði mörg mörk eftir hraðaupphlaup. Varnarleikurinn til dæmis á móti Ungverjum var stórkostlegur. Ég hef oft horft á upptöku frá leiknum og ég sannfærist betur og betur um hversu frábærlega tókst til. Eins var með leikinn í dag við Frakka. Mér fannst við leysa hann varnarlega vel.

Framan af mótinu var ég afar óánægður með markvörsluna og það var hún sem fyrst og síðast gerði okkur erfitt fyrir. Vissulega má benda á varnarleikinn og hann hangir saman við markvörsluna og svo sannarlega þurftum við að fá meira frá bæði vörninni og markvörslunni í fyrstu þremur leikjunum en því má ekki gleyma að þremur skotum meira varið í leiknum við Króatíu hefði kannski fært okkur sigur,“ segir Guðmundur sem ítrekar það sem hann sagði strax og dregið var í riðla í vor að ljóst hafi verið frá upphafi að milliriðillinn yrði erfiður með Frökkum, Spánverjum og annaðhvort Rússum eða Ungverjum.

Ánægður með milliriðilinn

„Ég er mjög ánægður með leik liðsins í milliriðlinum. Sigurinn á Ungverjum var mjög góður. Ungverjar komu inn í viðureignina við okkur taplausir og eftir að hafa unnið Frakka sannfærandi í leiknum á undan. Við hreinlega „pökkuðum“ þeim saman. Spánverjar eru um þessar mundir hreinlega sterkari en við og leikurinn við Frakka var góður og við náðum að ljúka honum með stæl, sérstaklega í sókninni. Hann leystum við mjög vel þar sem Frakkar beittu þrenns konar vörn gegn okkur og snemma leiks bökkuðu þeir úr 6/0-vörninni sinni sem þeir leika nánasta alltaf.“

Góð svör frá Aroni Rafni

Spurður hvernig honum þyki liðið búið undir komandi verkefni, sem eru ærin á næstu mánuðum, segir Guðmundur: „Við eigum mjög góðan grunn í sóknarleiknum sem við munum byggja á áfram. Þá hafa ungir menn fengið ómetanlega reynslu af stórmóti. Ef eitthvað er hefur leikmannahópurinn stækkað hjá okkur og það er jákvætt. Til dæmis fannst mér ég fá góð svör frá Aroni Rafni markverði á þeim stundarfjórðungi sem hann fékk að spila gegn Frökkum í dag,“ segir Guðmundur sem lýkur einnig lofsorði á Ólaf Bjarka Ragnarsson, Rúnar Kárason, Ólaf Guðmundsson og Kára Kristján Kristjánsson.