Ánægðar Anna Úrsúla Guðmundsdóttir var markahæst hjá Val og fór fyrir liðinu í fagnaðarlátunum í leikslok, enda sætur sigur í höfn.
Ánægðar Anna Úrsúla Guðmundsdóttir var markahæst hjá Val og fór fyrir liðinu í fagnaðarlátunum í leikslok, enda sætur sigur í höfn. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Hlíðarenda Kristján Jónsson kris@mbl.is Bikarmeistarar síðustu tveggja ára í handknattleik kvenna, Fram, voru slegnir út úr keppninni í 8-liða úrslitum af Íslandsmeisturum Vals á Hlíðarenda í gærkvöldi.

Á Hlíðarenda

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Bikarmeistarar síðustu tveggja ára í handknattleik kvenna, Fram, voru slegnir út úr keppninni í 8-liða úrslitum af Íslandsmeisturum Vals á Hlíðarenda í gærkvöldi. Valur skoraði fyrsta mark leiksins og var með yfirhöndina allt þar til yfir lauk. Valur sigraði 24:21 en að loknum fyrri hálfleik var staðan 12:8.

Þessi lið eru almennt talin þau sterkustu hérlendis og hafa verið það undanfarin ár eða frá því að Stjarnan fór að gefa eftir. Þau þekkjast vel og hafa barist um titlana síðustu tvö keppnistímabilin en þrátt fyrir það tókst Val að koma Fram á óvart í gærkvöldi. Fram bjóst við því að sækja gegn 6-0-vörn en Valur beitti hins vegar 5-1-vörn eins og liðið gerði oft á síðustu leiktíð. Fremst í vörninni spilaði Rebekka Skúladóttir sem ekkert hefur leikið með Val í vetur. Hún er í námi í Danmörku og hefur verið á flakki milli landanna. Hún hefur þó æft talsvert með Valsliðinu en þetta var fyrsti leikurinn sem hún tekur þátt í.

Valur komst í 6:0

Varnarleikur Vals átti sinn þátt í því að liðið náði góðu forskoti sem Fram tókst aldrei að éta upp. Valur komst til að mynda í 6:0 og í stöðunni 10:3 átti maður ekki von á því að Fram kæmist aftur inn í leikinn.

Fram tókst þó nokkrum sinnum að minnka muninn niður í þrjú mörk í síðari hálfleik en komst ekki nær en það fyrr en í stöðunni 22:20 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Þá gat Fram minnkað muninn niður í eitt mark en það tókst ekki. Annað tækifæri kom þegar um ein og hálf mínúta var eftir en Guðný Jenný Ásmundsdóttir varði þá glæsilega frá Marthe Sördal og innsiglaði þar með sigur Vals.

Níu mörk Stellu dugðu ekki til

Jenný stóð fyrir sínu í marki Vals og varði sextán skot og markvarslan var betri en hjá Fram að þessu sinni. Varnarleikur Vals var góður og lengi vel var Stella Sigurðardóttir sú eina sem komst eitthvað áleiðis gegn henni. Stella skoraði níu mörk í leiknum og var dugleg við að halda Valskonum við efnið en liðið saknaði örvhentu skyttunnar Birnu Berg Haraldsdóttur sem er meidd.

Sigurbjörg Jóhannsdóttir tók rispu á lokakaflanum og fór þá hvað eftir annað í gegnum vörnina með því að fara utanvert á milli bakvarðar og hornamanns. Hornamenn Fram, Marthe, Ásta Birna Gunnarsdóttir og Guðrún Þóra Hálfdánardóttir, létu hins vegar lítið að sér kveða og það er fremur óvenjulegt. Fram tefldi auk þess fram hinni ungversku Anett Köbli sem lengi hefur leikið hér á landi. Hún kom aftur til félagsins í vikunni og fann ekki taktinn en gæti hjálpað liðinu sem eftir er tímabilsins. Hjá Val var Anna Úrsúla Guðmundsdóttir markahæst með sjö mörk og Kristín Guðmundsdóttir skoraði sex.

FH og Stjarnan fóru áfram

Dregið verður um hvaða lið mætast í undanúrslitum í hádeginu í dag. ÍBV, Stjarnan og FH verða þar í pottinum ásamt Val. FH hafði betur gegn Gróttu á heimavelli 25:20 þar sem Kristrún Steinþórsdóttir var markahæst með sjö mörk. Stjarnan vann góðan útisigur á HK, 25:22, í Digranesi þar sem Sólveig Lára Kjærnested skoraði átta mörk fyrir Garðabæjarliðið.

• Á mbl.is/sport er að finna myndbandsviðtöl við Guðnýju Jennýju Ásmundsdóttur Val og Stellu Sigurðardóttur Fram.