Guðrún Halldóra fæddist 25 júlí 1940. Hún lést þann 15. janúar 2012.

Foreldrar hennar voru Guðrún Þóra Þorkelsdóttir og Magnús Ólafsson. Þau eru bæði látin. Guðrún Halldóra var einkabarn þeirra.

Guðrún Halldóra kvæntist Baldvini Erlendssyni árið 1957. Baldvin er fæddur 27. nóv 1938.

Börn þeirra. 1) Magnús Gunnar f. 1957, hann á tvö börn; Einar og Lenu. 2) Sigríður Gíslína f. 1960. Hún á þrjú börn; Jóhann, Írisi og Birki Örn. 3) Björg Sigrún f. 1962, gift Valmundi Valmundssyni og eiga þau tvö börn; Önnu Brynju og Val Má. 4) Erla f. 1965.

Guðrún Halldóra og Baldvin skildu. Guðrún Halldóra kvæntist Pétri Sigurðssyni, f. 26 jan. 1946, d. 13, jan. 2006, kjötiðnaðarmanni, árið 1977. Þau eignuðust Ólaf Pétur 1978. Hann á tvö börn, Heiðar Mána og Salvar. Pétur átti tvo syni af fyrra hjónabandi, Jón, sem er látinn, og Vigni.

Guðrún Halldóra vann við verslunarstörf framan af ævi en síðustu 30 árin starfaði hún í heimilisþjónustu Reykjavíkurborgar.

Útför Guðrúnar Halldóru hefur farið fram í kyrrþey.

Ég kynntist henni Gunnu Dóru tengdamóður minni árið 1980. Þá vorum við Björg nýbúin að kynnast. Gunna Dóra bjó þá á Eiríksgötunni með honum Pétri sínum og augasteini þeirra hjóna, Óla Pétri sem þá var tveggja ára. Pétur lést í slysi árið 2006. Oft var stormasamt á milli okkar Gunnu Dóru en alltaf sættumst við og tókum þá utan um hvort annað. Síðustu jól var hún hjá okkur á jóladag ásamt börnunum sínum. Ekki flaug mér í hug að það yrði í síðasta skipti sem við hittumst, þó hún væri að berjast við illvígan sjúkdóm. Hélt hún myndi sigrast á honum eins og svo mörgu öðru í lífinu. Lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá Gunnu Dóru. Hún fylgdist alltaf vel með barna- og barnabörnunum sínum, þau voru hennar ær og kýr.

Alltaf þegar við hittumst hrósaði hún mér og þakkaði fyrir að hafa hugsað vel um hana Böggu sína. Góð og yndisleg amma var hún börnum okkar Boggu og barnabarni. Þeim fannst alltaf gaman að mæta til ömmu. En ég ætla að virða þá ósk hennar að ekki verði mikið tilstand „þó maður taki upp á því að deyja“ eins og hún komst að orði.

Veistu ef þú vin átt

þann er þú vel trúir

og vilt þú af honum gott geta.

Geði skaltu við þann blanda

og gjöfum skipta,

fara að finna oft.

(Úr Hávamálum.)

Innilegar þakkir, Gunna mín, fyrir að fá að kynnast þér og eiga með þér mörg ár sem gjarnan hefðu mátt vera fleiri.

Kærar kveðjur fylgja þér á nýjan og betri stað frá mér og Björgu, frá Önnu Brynju, Davíð Erni og Unu Björgu og auðvitað frá Val Má og Lindu.

Valmundur Valmundsson.