Dómur Að hvaða niðurstöðu Hæstiréttur Íslands kemst í máli Pinedo hefur mikla þýðingu.
Dómur Að hvaða niðurstöðu Hæstiréttur Íslands kemst í máli Pinedo hefur mikla þýðingu. — Morgunblaðið/Kristinn
Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is Í febrúar mun hæstiréttur úrskurða um vaxtaforsendur gengislána, það er hvort bankarnir geti áfram rukkað fólk aftur í tímann um vexti þótt það sé þegar búið að greiða þá. Um gríðarlega hagsmuni er að ræða fyrir skuldara.

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

Í febrúar mun hæstiréttur úrskurða um vaxtaforsendur gengislána, það er hvort bankarnir geti áfram rukkað fólk aftur í tímann um vexti þótt það sé þegar búið að greiða þá. Um gríðarlega hagsmuni er að ræða fyrir skuldara.

Eins og alkunna er féllu dómar í hæstarétti um ólögmæti gengislána (mál nr. 92/2010 og 153/2010), þar sem lán sem tekin voru í íslenskum krónum en tengd erlendum gjaldmiðli voru dæmd ólögmæt samkvæmt reglum laga nr. 38/2001.

Ágreiningur er aftur á móti enn uppi um hvort þar með falli vaxtaútreikningur þessara lána niður eða ekki. Skuldarar hafa þegar greitt vexti af lánunum en þar sem um gengislán hafi verið að ræða voru þeir eðlilega lágir. Bankarnir hafa því rukkað aftur í tímann út frá töxtum Seðlabanka Íslands um vexti og krafist mun hærri greiðslna.

Mál Maríu Elviru Mendéz Pinedo, prófessors hjá Háskóla Íslands og sérfræðingi í Evrópurétti, verður flutt fyrir hæstarétti hinn 6. febrúar og eru sjö dómarar settir yfir málið. Þegar svo margmennur dómur er í málum er venjan að málsmeðferðin taki stuttan tíma, hugsanlega aðeins tvær til þrjár vikur.

Þeir lögfræðingar sem talað var við telja að það sé á brattann að sækja fyrir Ragnar Hall sem rekur málið fyrir Elviru Mendéz Pinedo enda hafi dómur fallið í máli Guðlaugs Egilssonar gegn Lýsingu, nr. 471/2010, nema að þar var um bílalán að ræða en ekki húsnæðislán eins og í tilviki Pinedo. Í þeim dómi segir að þar sem kveðið er á um að vextir skuli borgaðir en ekki hægt að tengja þá við erlendu myntina, „skyldu vextir þegar svo stæði á vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum.“