Andrea Ólafsdóttir
Andrea Ólafsdóttir
Eftir Andreu J. Ólafsdóttur: "Hagsmunasamtök heimilanna standa fyrir undirskriftasöfnun fyrir almennum leiðréttingum lána og afnámi verðtryggingar og fylgja kröfunum fast eftir."

Þann 1. október síðastliðinn afhentu Hagsmunasamtök heimilanna (HH) forsætisráðherra um 34 þúsund undirskriftir þar sem farið er fram á almenna, réttláta leiðréttingu lána og afnám verðtryggingar. Ríkisstjórnin ákvað í kjölfarið að fá á hreint hið svokallaða „afskriftasvigrúm“ þríburabankanna, auk þess sem lagt yrði mat á þær fjórar leiðir sem HH lögðu til við að leiðrétta höfuðstól lána og afnema verðtryggingu.

Forsætisráðherra ætlaði að setja af stað sérfræðingahóp þann sem lagði mat á þær leiðir sem voru til umræðu til leiðréttingar lána í lok 2010, en vinna þess hóps skilaði þjóðinni 110% leiðinni, greiðsluaðlögun, sértækri skuldaaðlögun og tímabundinni hækkun vaxtabóta. HH neitaði að taka þátt í sama hóp á sömu forsendum en lagði þess í stað til sameiginlega viljayfirlýsingu um verkefnið, milli HH og ríkisstjórnarinnar.

Forsætisráðherra hafði ekki áhuga á skrifa undir slíka viljayfirlýsingu, en tók ákvörðun um að leggja það í hendur Hagfræðistofnunar HÍ að meta bæði svigrúm bankanna og leiðir HH til leiðréttingar. Jafnframt lýsti forsætisráðherra því yfir í sjónvarpi að með þessu væri samt ekki verið að lofa neinu um aðgerðir!

Hagfræðistofnun afhendir skýrsludrög

Þann 17. janúar voru fulltrúar HH boðaðir á fund Hagfræðistofnunar þar sem niðurstöður voru kynntar og skýrsludrög afhent. HH var gefinn sólarhringur til að skila inn athugasemdum við hana! Fulltrúar HH lögðu fram fjölmargar spurningar um viðfangsefnið áður en vinnan við skýrslugerð hófst og er fæstum þeirra svarað. Samtökin hafa nú sent skýrsludrögin til föðurhúsanna með fjölmörgum alvarlegum athugasemdum. Ætli Hagræðistofnun og stjórnvöld sér að birta skýrsluna án mikilla efnislegra breytinga mun hún ekki skila tilætluðum árangri – „að fá upp á borðið nákvæmar tölur um afslátt bankanna og hið svokallaða afskriftasvigrúm“ – heldur þvert á móti verða enn eitt plaggið sem eykur á talnamengun og er ekki til annars fallin en að orðspor þeirra bíði hnekki.

Víðtækur þjóðarmeirihluti og þingmeirihluti

Stuðningur þjóðarinnar við kröfur HH er víðtækur, en í nóvember síðastliðnum gerði Capacent Gallup könnun fyrir samtökin sem gefur til kynna að kröfurnar um afnám verðtryggingar og almennar leiðréttingar lána endurspegli vilja 80% þjóðarinnar. Ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins undir lok árs 2011 rímaði einnig við þessar kröfur og hafa því allir flokkar ályktað í þessa veru, en lítið gerist á Alþingi. Má því leiða líkur að því að nú sé kominn bæði þjóðarmeirihluti og þingmeirihluti fyrir kröfum HH og kominn tími á framkvæmdir í þessum efnum.

Engann skyldi undra að almenningur fari fram á kröfur um leiðréttingu lána heimilanna í landinu sem leiðrétta forsendubrestinn og dreifa ábyrgðinni á hruninu, meðal annars í ljósi nýlegra frétta þar sem fram kemur að fjárfestingar- og eignarhaldsfélög hafa fengið 83 prósent skulda sinna niðurfelld frá því í september 2011, þegar lög tóku gildi um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

HH leita nú til forsetans

Hagsmunasamtök heimilanna áttu fund með þingmönnum í nóvember 2011 og svo aftur í byrjun janúar 2012 í þeim tilgangi að ýta við þeim sem áhuga hafa á því að taka höndum saman á Alþingi og setja fram þingmál um kröfur samtakanna. Þeir þingmenn sem hingað til hafa lýst yfir áhuga að taka þátt í að setja málið á dagskrá þingsins koma allir úr stjórnarandstöðu. Á þingmannafundinum kom fram að yfir hátíðirnar áttu fulltrúar ríkisstjórnarinnar í viðræðum við Hreyfinguna um að verja stjórnina falli þar sem komin er upp sú umræða í þinginu að leggja fram vantraustsyfirlýsingu. Var það krafa Hreyfingarinnar að þessi mál yrðu afgreidd ásamt fleirum ef þau ættu að verja stjórnina falli, og lögðu þau til ákveðna nálgun sem ríkisstjórnin gat ekki fallist á. Í því samhengi má jafnframt geta þess að skuldavandi heimilanna hefur oft verið ræddur á Alþingi og þar hafa verið lagðar fram þó nokkrar tillögur í þá veru að leiðrétta fyrir forsendubrestinum og afnema verðtryggingu, en lítið er um framkvæmdir.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa komist að þeirri niðurstöðu að vænlegast sé að leita til forsetans, óska eftir að hann beiti ákvæðum í stjórnarskrá til þess að fá málið afgreitt og þrýsti á stjórnvöld að bregðast við. Til þess hefur forsetinn ýmsar leiðir, meðal annars hefur hann heimild samkvæmt 25. grein stjórnarskrárinnar til að „leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta“. Samtökin hafa nú farið fram á fund með forsetanum.

Nú hafa rúmlega 37 þúsund skrifað undir í undirskriftasöfnun HH. Ráðgert er að afhenda bindi nr. 2 í undirskriftasöfnun á næstunni. Ef nokkur þúsund manns eru tilbúnir að verja minnst klukkutíma í að afla fleiri undirskrifta með því að hringja í vini og vandamenn, eða tala augliti til auglitis við fólk og taka að sér að skrá fólk í undirskriftasöfnunina á undirskrift.heimilin.is mun það efla okkur til muna í þeirri mikilvægu réttlætisbaráttu sem samtökin hafa tekið að sér fyrir hönd heimilanna í sjálfboðavinnu.

Höfundur er formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.

Höf.: Andreu J. Ólafsdóttur