Mikil breyting Svæðið sunnan við Bautann og inn fyrir umferðarmiðstöðina mun breytast verulega ef tillaga að nýju deiliskipulagi verður að veruleika.
Mikil breyting Svæðið sunnan við Bautann og inn fyrir umferðarmiðstöðina mun breytast verulega ef tillaga að nýju deiliskipulagi verður að veruleika.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÚR BÆJARLÍFINU Skapti Hallgrímsson Akureyri Tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir svokallaða Drottningarbraut er nú í kynningu.

ÚR BÆJARLÍFINU

Skapti Hallgrímsson

Akureyri

Tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir svokallaða Drottningarbraut er nú í kynningu. Óánægjuraddir heyrast, enda breytingin á bæjarmyndinni töluverð og nú er farið að safna undirskriftum gegn breytingunni, eins og var reyndar nefnt hér fyrir viku.

Sjón er sögu ríkari. Hugsanleg breyting sést á myndunum hér til hliðar, þar sem fyrirhuguðum húsum hefur verið bætt við.

Ráðið hefur verið í þrjár stöður framkvæmdastjóra við Sjúkrahúsið á Akureyri. Hildigunnur Svavarsdóttir er nýr framkvæmdastjóri hjúkrunar og bráða-, fræðslu- og gæðasviðs, Sigurður E. Sigurðsson framkvæmdastjóri lækninga og handlækningasviðs og Gróa B. Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri lyflækningasviðs.

Sjóræningjafánum verður að öllum líkindum flaggað vítt og breitt um bæinn í tilefni af frumsýningu Gulleyjunnar hjá Leikfélagi Akureyrar annað kvöld. Verslunin The Viking á Akureyri hefur gefið LA nærri hundrað sjóræningjafána sem fólk getur fengið gefins. Þeir verða afhentir í Samkomuhúsinu. Fyrstur kemur, fyrstur fær...

Tilkynnt var í vikunni að Sjallinn hefði hætt við að halda „Dirty night“ sem auglýst hafði verið á Facebook undanfarið, þar sem viðburðurinn „stríðir mjög gegn jafnréttisstefnu bæjarins þar sem m.a. er lögð áhersla á að vinna gegn stöðluðum kynjaímyndum“, eins og segir í tilkynningu frá Sjallanum.

Viðburðir sem „Dirty night“ hafa verið haldnir víða um land og verið mjög umdeildir, „enda um að ræða hugmyndafræði sem lýtur að stöðluðum kynjaímyndum. Akureyrarbær fagnar þeirri samfélagslegu ábyrgð sem rekstraraðilar Sjallans sýna í þessu máli“, segir í fréttatilkynningu frá bænum.

Ástæða er til að óska forráðamönnum Sjallans til hamingju með þá ákvörðun.

Skákmót verður í Pennanum-Eymundsson kl. 17 og opið hús hjá Skákfélaginu í Íþróttahöllinni í kvöld. Tilefnið er auðvitað Skákdagurinn.

Fastagestir í Sundlaug Akureyrar sem kunna mannganginn ættu að drífa sig snemma í laugina í dag. Strax klukkan átta hefst sundskák, þar sem Akureyrarmeistarinn Smári Ólafsson vígir skáksett sem hentar vel til við þessar aðstæður.

Söguleg stund er framundan í Hofi; 5. febrúar verða fyrstu píanótónleikarnir þar sem enginn annar en Víkingur Heiðar Ólafsson leikur, m.a. frumflytur hann sex píanólög eftir Jón Hlöðver Áskelsson.