EM í Serbíu
Ívar Benediktsson í Novi Sad
iben@mbl.is
Ísland átti að fá síðustu sókn leiksins gegn Frökkum í viðureign þjóðanna á Evrópumeistaramótinu í handknattleik í gær. En vegna athugunarleysis beggja eftirlitsmanna og dómara leiksins fengu Frakkar að halda boltanum og reyna að tryggja sér sigurinn í stöðunni 29:29.
Frakkar voru að hefja sókn 15 sekúndum fyrir leikslok þegar Claude Onesta þjálfari þeirra tók leikhlé. Þá voru Frakkar með einum leikmanni meira á vellinum en þeir máttu samkvæmt reglum.
„Ég tók eftir þessu og kvartaði strax við eftirlitsmennina sem tóku ekki eftir neinu og því var ekkert gert. Onesta og fleiri viðurkenndu við mig að þeim hefðu orðið á þau mistök að vera með einum of marga leikmenn inn á þegar síðasta sókn þeirra hófst,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, við Morgunblaðið í gær.
Eftirlitsmenn sofandi
„Eftirlitsmenn á leiknum vinna bara alls ekki sitt starf og því miður er það ekki í fyrsta skiptið sem það gerist,“ sagði Guðmundur sem mótmælti því hástöfum í byrjun leikhlésins að Frakkar fengju að komast upp með þetta. Eftirlitsmenn og dómarar sem ekki tóku eftir neinu létu mótmæli Guðmundur og fleiri úr íslenska liðinu sem vind um eyru þjóta.Samkvæmt reglum áttu Frakkar að missa boltann í þessu tilfelli og missa einn leikmann af leikvelli. Íslendingar áttu að fá boltann og vera manni fleiri. „Við áttum að fá síðustu sóknina, það er á hreinu, og áttum möguleika á að tryggja okkur sigur. Þarna var um alvarlega yfirsjón að ræða sem hefði verið enn verri ef liðin hefðu t.d. verið að spila um sæti í forkeppni Ólympíuleikanna eða um sæti í undanúrslitum, svo dæmi sé tekið,“ segir Guðmundur.
Ekki hægt að kæra
Ekki er hægt að kæra yfirsjón eftirlitsmanna eða dómara í þessu tilfelli. Röng ákvörðun þeirra stendur.Guðmundur hafði fleira að athuga við dómgæsluna í lokin, og það var þegar tíminn var stöðvaður tveimur sekúndum fyrir leikslok eftir að dæmt var aukakast á Ísland eftir að franskt skot hafnaði í marki Íslands.
„Í þessu tilfelli á alls ekki að stöðva tímann, það er ekkert í reglunum sem segir það. Ég spyr, ætla þessir menn aldrei að læra reglurnar. Það er ekki okkar að koma boltanum í leik heldur Frakka í þessu tilfelli og því átti leiktíminn að renna út,“ segir Guðmundur og rifjaði upp enn alvarlegra atvik frá viðureign Íslands og Austurríkis á EM fyrir tveimur árum þegar rúmenskir dómarar stöðvuðu tímann ítrekað á síðustu mínútunni.