Bíða dóms Hæstiréttur fjallar í febrúar um mál, sem höfðað var til að fá skorið úr um vaxtaforsendur gengislána.
Bíða dóms Hæstiréttur fjallar í febrúar um mál, sem höfðað var til að fá skorið úr um vaxtaforsendur gengislána. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is Héraðsdómur Reykjavíkur fjallar þessa dagana um útburðarkröfu frá Lýsingu hf. sem beinist að fasteignafélaginu Sýr ehf. og fasteignum sem það hefur umráð yfir.

Fréttaskýring

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

Héraðsdómur Reykjavíkur fjallar þessa dagana um útburðarkröfu frá Lýsingu hf. sem beinist að fasteignafélaginu Sýr ehf. og fasteignum sem það hefur umráð yfir.

Forsaga málsins er sú að árið 2006 gerðu Lýsing hf. og Sýr ehf. með sér samning á þann veg að Lýsing keypti fasteignir og gerði síðan kaupleigusamning við Sýr ehf. um hverja eign fyrir sig.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru fasteignirnar í dag metnar á þriðja milljarð króna. Má þar meðal annars nefna Ármúla 2, Reykjavík, þar sem stærstur hluti starfsemi Advania, áður Skýrr hf., fer fram. Meðal annarra leigutaka Sýr ehf. má nefna Iceland Seafood International hf.

Að sögn heimildarmanna Morgunblaðsins borga leigutakar Sýr ehf. leigu fyrir húsnæðið en Sýr ehf. stendur aftur á móti ekki í skilum við Lýsingu. Ástæðan fyrir því að Sýr ehf. borgar ekki til Lýsingar er ágreiningur á milli þessara aðila um uppgjör á kaupleigusamningum.

Nú er svo komið að Lýsing hf. hefur rift öllum kaupleigusamningum sínum gagnvart Sýr ehf. Það var gert í ágúst síðastliðnum. Undir eðlilegum kringumstæðum myndi það taka langan tíma að koma að útburði en þar sem Lýsing hf. taldi sig hafa skýrt mál í höndum var þess freistað að fara styttri leið fyrir dómi og fá útburð samþykktan strax núna í janúar.

Því hefur verið hafnað, enda málið ekki skýrara en svo að verið er að reka dómsmál um það.

Í samtali við Sigurð G. Guðjónsson, lögmann Sýr ehf., kom fram að Sýr ehf. hefði borgað fyrir allt viðhald og greitt fasteignagjöld, vátryggingagjöld og allt eins og samningurinn segir til um.

„Ég veit ekki til þess að það standi ein króna upp á fyrirtækið hvað það varðar,“ sagði Sigurður. „En það er rétt að Sýr ehf. hefur ekki greitt af kaupleigusamningnum frá því að Lýsing kom með endurútreikninga á þeim í byrjun árs 2011 af þeirri einföldu ástæðu að um það er ágreiningur hver skuld Sýr sé. En margt í þeim ágreiningi mun skýrast fyrir hæstarétti núna í febrúar.“

Sigurður vísar þar í mál Elviru Mendez Pinedo, prófessors við Háskóla Íslands og sérfræðings í Evrópurétti, sem fjallar um vaxtaforsendur gengislána en búist er við dómsúrskurði í því í lok febrúar.

„Þegar þessir samningar voru gerðir árið 2006 var kaupupphæðin um 1.700 milljónir og voru 300 milljónir fyrirfram greiddar. En þegar verst var var skuldin komin í yfir fjóra milljarða. Núna er hún metin á um það bil 2,7 milljarða og þegar búið er að leysa ágreining um hvað Sýr skuldar Lýsingu verður gengið í uppgjör,“ sagði Sigurður.

DEILA UM SKULD

Leigutekjur

Síðan ágreiningur kom upp um hver skuld Sýr ehf. við Lýsingu væri hefur Sýr haldið eftir leigutekjum því leigutakar hafi staðið í skilum við Sýr ehf. Að sögn Sigurðar G. Guðjónssonar, lögmanns Sýr ehf., er það rétt að allir hafi staðið í skilum nema Advania/Skýrr ehf. sem hafi ekki borgað leiguna fyrir janúarmánuð í ár.