Sigurður Gunnar Kristjánsson, sjómaður, verkamaður og síðar múrari, fæddist á Akrahóli í Grindavík 8. október 1929. Hann lést 10. janúar 2012.
Útför Sigurðar var gerð frá Grindavíkurkirkju 20. janúar 2012.
Elskulegi pabbi minn, það er ótrúlegt að þú sért farinn frá okkur, þú fórst fljótt eins og mamma gerði árið 2006. Það er sárt að hugsa til þess að ég geti ekki fylgst með þér lengur, gefið þér að borða, haft við þig blaðaskipti, þú fékkst Fréttablaðið og ég Moggann, og passað að allt sé í lagi hjá þér, nú er þessu hlutverki lokið hjá mér.
Alltaf varstu svo góður við mig og mína fjölskyldu, alltaf tilbúinn að rétta fram hjálparhönd ef ég þurfti á aðstoð að halda, alveg sama hvað það var. Það verður gott að geta hugsað til allra góðu minninganna sem við áttum saman, við fórum saman í margar útilegur, sumarbústaðarferðir og í einu ferðina sem þið mamma fóruð til útlanda, verst að þær voru ekki fleiri. Þú varst mikið fyrir afa- og langafabörnin, vildir gera allt fyrir þau, verst að þú verður ekki hjá okkur þegar nýjasta barnið kemur í heiminn.
Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mína fjölskyldu, ég veit að núna ertu sæll og glaður að vera kominn til hennar mömmu. Ég bið guð að gefa okkur styrk á þessum erfiðu tímum.
Nú kveð ég þig, elsku pabbi, með söknuði.
Þegar sorgar titra tárin,
tregamistur byrgir sýn.
Huggar, græðir hjartasárin,
hlý og fögur minning þín.
(F.S.)
Þín dóttir,
María Þóra.